Skoðun

Fyrir­byggjum á­reitni og of­beldi innan ferða­þjónustunnar

Bryndís Skarphéðinsdóttir, Margrét Wendt og Ólína Laxdal skrifa

Það hefur sýnt sig að áreitni og ofbeldi á vinnustað geta haft veruleg áhrif á heilsu og vellíðan starfsfólks. Þolendur geta meðal annars upplifað streitu, þunglyndi, lágt sjálfsmat og minni starfsánægju. Allt getur þetta leitt til aukinnar fjarveru, ýtt undir starfsmannaveltu, og skapað neikvæðan starfsanda.

Samkvæmt rannsókn frá síðasta ári eru konur á opinberum vettvangi, í ferðaþjónustutengdum störfum (öðrum en veitingageiranum), og í löggæslu og öryggisþjónustu í mestri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi í vinnunni. Edda Björk Þórðardóttir, lektor við HÍ, bendir á að „konur sem vinna á slíkum stöðum eru líklegri til þess að vera einar að störfum með mögulegum gerendum og því engin vitni að áreitninni eða ofbeldinu. Að þessu þarf að huga þegar öryggi á vinnustöðum er til skoðunar“.

Stjórnendur í ferðaþjónustu þurfa að takast á við margvíslegar aðstæður á vinnustöðum þar sem brýnt er að hafa stefnu og viðbragðsáætlun til staðar til að skapa umhverfi sem setur velferð starfsfólks í forgang. Einnig er lagaleg skylda að atvinnurekendur geri skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir starfsfólk. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar vill auðvelda stjórnendum að innleiða slíka áætlun og hefur því tekið saman gagnlegt fræðsluefni sem er aðgengilegt öllum á hæfni.is.

Jafnframt bjóða Hæfnisetrið og Samtök ferðaþjónustunnar til rafræns fundar 3. október n.k. þar sem fjallað verður um samskipti og líðan á vinnustað, með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni. Fundinum verður streymt frá Facebook síðu Hæfnisetursins.

Ferðaþjónustan hefur tekist á við margar áskoranir síðustu ár en er að ná sínum fyrri styrk þar sem rými myndast til að huga að gæðamálum, fræðslu og forvörnum til að tryggja jákvætt og öruggt vinnuumhverfi innan ferðaþjónustunnar.

Höfundar eru starfsfólk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×