Skoðun

Vörumerkið Ísland

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í rekstri margra fyrirtækja er vörumerkið verðmætasta eignin þótt ekki sjáist það sem tala á blaði. Vörumerkið er samofið ímynd fyrirtækisins. Og fyrirtækin leggja ofurkapp á að varðveita vörumerkið og þar með ímynd fyrirtækisins. Vel rekin fyrirtæki fórna ekki langtímahagsmunum sínum fyrir skammtímagróða með því að gjaldfella vörumerkið. Dæmi hins gagnstæða eru vissulega fyrir hendi, en þau eru víti til að varast.

Tveir fyrirsvarsmenn ferðaþjónustunnar viku nýlega að varnaðarorðum mínum um uppbyggingu ferðaþjónustunnar með fremur neikvæðum orðum. Fyrir mér vöktu ekki síst langtímahagsmunir ferðaþjónustunnar. Hagsmunir þjóðarinnar og ferðaþjónustunnar fara nefnilega saman til framtíðar, ekki bara til skamms tíma.

Okkur eru flestum í fersku minni þegar bankakerfið hrundi á Íslandi. Skammt er síðan covid lauk. Hvort tveggja hefur beint sjónum okkar að kerfislægri fjárhagsáhættu. Kerfisáhætta teldist vera fyrir hendi þegar truflun á flæði ferðaþjónustu gæti haft alvarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir allt hagkerfið. Slíka áhættu þarf að meta og koma í veg fyrir hana. Það er á að þvílík kerfisáhætta geti skapast. Það er ekki nóg að bregðast við afleiðingum, þegar og ef hættan raungerist.

Við uppbyggingu atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu sem krefst mikils erlends vinnuafls þurfum við að taka allt með í reikninginn. Erlendu vinnuafli fylgir uppbygging á húsnæði, skólum fyrir börn sem fylgja og jafnvel viðbótarkennsla. Álag eykst á heilbrigðiskerfið, bæði frá vinnuaflinu og ferðamönnunum. Svo má áfram telja.

Varkárni í uppbyggingu ferðaþjónustu er ekki síst hagsmunamál fyrir atvinnugreinina. Ef við yfirfyllum landið laskast vörumerkið Ísland. Landið verður ekki eins eftirsóknarvert og verið hefur. Þá tapa allir. Ýmis héröð í Sviss hafa t.a.m. brugðist við ofgnótt ferðmanna á vinsælum áningarstöðum og leitast við að takmarka fjöldaferðamennsku. Kannski ættum við að huga að fyrirbyggjandi ráðstöfunum. Geta ekki allir verið sammála um það?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×