Skoðun

Tauga­veiklun í Seðla­bankanum

Sigurjón Þórðarson skrifar

Flest í efnahagslega umhverfi landsins er hagfellt; fisk- og álverð er hátt, ferðamenn streyma til landsins og hagvöxtur á kínverskum mælikvarða á sl. ári eða rúm 6%. Vandi efnahagslífsins er mikil verðbólga sem orsakast annars vegar af hækkun á verði erlendra aðfanga og hins vegar vegna skorts á húsnæði. En húsnæðisverð hefur hækkað upp úr öllu valdi undanfarin misseri. Vissulega hafa stjórnvöld kynnt verðbólgubálið með griðarlegum verðskrárhækkunum á þjónustugjöldum.

Seðlabankinn hefur brugðist við verðbólgunni með gengdarlausum vaxtahækkunum en vandséð að hækkanir Seðlabankans geti haft nokkur áhrif á t.d. olíuverð á heimsmarkaði eða aukið framboð á íbúðarhúsnæði eða hvað þá lækkað gjaldheimtu Bjarna Ben.

Margt bendir til þess að vaxtahækkanirnar hafi þveröfug áhrif, m.a. vegna þess að þær draga úr hvötum til byggingu íbúðarhúsnæðis og auka rekstrarkostnað fyrirtækja sem fyrirtæki velta síðan eðlilega út í verðlagið.

Ýmislegt bendir til þess að það ríki ákveðið ójafnvægi og óðagot í Seðlabankanum, þ.e. að menn skrúfi upp vextina, án þess að meta heildstætt þau áhrif sem gríðarlegar hækkanir stýrivaxta hafa á hagkerfið. Vaxtahækkanirnar hafa vissulega lítil áhrif á verðbólguna, en hafa mikil á afkomu skuldsettra heimila og nú svo mikil að það stefnir í óefni. Það er sturluð staðreynd að stjórnvöld séu markvisst að setja heimilin og einkum heimili yngri kynlsóðanna á vonarvöl, og það þegar vel árar í samfélaginu.

Seðlabankinn er að setja heimilinn á hausinn í miðju góðæri.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×