J0n hetjan í sigri LAVA

Snorri Rafn Hallsson skrifar
j0n

LAVA fór létt með Viðstöðu síðast þegar liðin mættu og vann 16–8 í Inferno, en fyrir leik gærkvöldsins sem fór fram í Vertigo höfðu bæði lið unnið 8 leiki og voru jöfn með 16 stig.

Viðstöðu vann hnífalotuna og byrjaði í vörn. LAVA reyndi að sækja hratt í skammbyssulotunni en lentu á vegg Viðstöðu og töpuðu fljótt. Næsta lota spilaðist svipað en eftir hana gat LAVA vopnast, jafnað og gert Viðstöðumenn blanka. Með því að beita búnaði á snjallan hátt komst LAVA fram úr, 4–2. Instant var of gráðugur í 7. lotu og gat Viðstöðu stolið stiginu. LAVA virtist betur undirbúið fyrir leikinn og samhæfðari á kortinu. TripleG leiddi liðið af mikilli ró á meðan Stalz hitti langbest fyrir LAVA. Viðstöðu missti nokkrum sinnum leikmann LAVA fram hjá sér allt of auðveldlega, sem gerði LAVA létt fyrir og glímdi Viðstöðu því við fjárhagsvandræði oftar en einu sinni. TripleG var léttur á fæti og þreföld fella frá honum kom LAVA í 9–4, og var liðið í ágætri stöðu fyrir síðari hálfleikinn.

Staðan í hálfleik: LAVA 10 – 5 Viðstöðu

TripleG var í essinu sínu í Vertigo og hóf síðari hálfleikinn með tvöfaldri opnun en Blazter kom sprengjunni engu að síður niður. Þreföld fella frá Pabo kom í veg fyrir að LAVA næði að aftengja sprengjuna og í næstu tveimur lotum minnkaði Viðstöðu muninn enn frekar. Liðin hægðu á sér í 19. lotu og skiptust á mönnum en TripleG krækti sér í þrefalda fellu og bjargaði lotunni fyrir LAVA. Viðstöðu sótti hratt í kjölfarið, vann og sendi LAVA í spar. Það nýtti Viðstöðu sér og minnkaði muninn í aðeins eitt stig. Líf var komið í leikinn.

Blazter var kominn með flestar fellur í leiknum og LAVA gat ekki reynt að aftengja sprengjuna þegar Viðstöðu loks jafnaði í 11–11. Vappinn var ekki að virka hjá LAVA sem lenti undir. Það dugði ekkert minna en fjórföld fella frá J0ni til að jafna leika aftur í í 12–12. Liðin skiptust á lotum eftir það og var útlit fyrir að tvöföld fella Klassy til að taka út síðustu leikmenn LAVA þegar Viðstöðu jafnaði í 14–14 myndi skipta miklu máli því þá þurfti LAVA að spara við sig í vopnakaupum. J0n og Stalz höfðu hins vegar betur í næstu lotu tveir á tvo og reyndist það mikill skellur fyrir Viðstöðu. Mozar7 jafnaði þó í þrítugustu lotu og því fór leikurinn í framlengingu.

Staðan eftir venjulegan leiktíma: LAVA 15 – 15 Viðstöðu

Instant og J0n tryggðu LAVA fyrstu lotuna í framlengingunni en enn var allt stál í stál og Viðstöðu jafnaði. Stalz kom LAVA í 17–16 og LAVA kom sprengjunni fyrir í lotunni á eftir það. Klassy var einn gegn Stalz og Instant og Stalz tók hann. LAVA vantaði því aðeins eitt stig til að ljúka leiknum og koma sér upp fyrir Breiðablik á stigatöflunni í lok tímabilsins. Allt var á herðum J0n sem kom sprengjunni fyrir í næstu lotu, og náði hann að fella tvo til að tryggja LAVA sigurinn.

Lokastaðan: LAVA 19 – 16 Viðstöðu

Leikirnir