Skoðun

Þegar Ís­land á­kvað stækkun NATO

Friðrik Jónsson skrifar

Í lok maí síðastliðinn voru 25 ár síðan að haldinn var utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Sintra, Portúgal, þar sem fram fór fyrsta umræða ráðherra bandalagsins um hvaða fyrrum austantjaldsríki myndu fá boð um aðild. Ef frá er talin sameining Þýskalands þá var í vændum fyrsta stækkun bandalagsins með aðild ríkja sem áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu.

Á leið til stækkunar bandalagsins

Allt frá því að kalda stríðinu lauk, fyrst með falli Berlínarmúrsins 1989 og síðar með falli og upplausn Sovétríkjanna 1991, hafði umræða um mögulega aðild fyrrum austantjaldsríkja að NATO verið í deiglu. Veturinn 1996-1997 komst mikill skriður á þau mál og hvert ríkið á fætur öðru viðraði áhuga.

Ísland tók þátt í umræðum um stækkun bandalagsins á vettvangi þess og setti auk þess fram sín sjónarmið á alþjóðavettvangi. Leiðtogar þingmannanefnda NATO funduðu í Reykjavík í byrjun apríl 1997 og hélt þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, ræðu af því tilefni. Þar lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi þess að bandalagið væri opið fyrir nýjum aðildarríkjum og að fyrirhuguð stækkun á leiðtogafundinum sem fyrirhugaður var í Madrid í júlí 1997 yrði ekki sú síðasta. Ræðan vakti nokkra athygli þingmannanna og fór svo að þingmaðurinn Gerald B.H. Solomon frá New York fylki í Bandaríkjunum óskaði heimildar til þess að færa hana til bókar í bandaríska þinginu.

Eitt af því sem var ofarlega í huga íslenskra stjórnvalda þá þegar voru hagsmunir Eystrasaltsríkjanna, sem sóttu fast að eiga þess kost að fá aðild að bandalaginu. Ljóst var að þau teldust ekki tilbúin til að vera hluti fyrstu bylgju nýrra aðildarríkja, og því var sérstaklega mikilvægt að þessi fyrsta stækkun tækist einmitt vel þ.a. ekki yrði hik við framhaldið.

Til Sintra

Frakkland sótti mjög fast að Rúmenía yrði hluti af fyrstu stækkun en var í veikari stöðu hvað varðar áhrif innan bandalagsins þar sem Frakkland var ekki þátttakandi í herstjórnarkerfi þess. Auk þess var Rúmenía ekki komin eins langt í umbótum tengdum öryggis- og varnarmálum og önnur umsóknarríki.

Í Sintra átti hins vegar að viðra á ráðherrastigi hvert svigrúmið væri til stækkunar, hverjar væru áherslur þáverandi aðildarríkja og hvernig væri líklegast að ná sammæli í þessari mikilvægu ákvarðanatöku fyrir bandalagið.

Sérstakur hádegisverðarfundur hafði verið ákveðinn þar sem eingöngu átti að ræða stækkunina og hvaða ríkjum skyldi boðið fyrst. Sá fundur átti að vera óformlegur og í algerum trúnaði.

Við sem vorum í íslensku sendinefndinni höfðum að vanda undirbúið fundina í Sintra mjög vel, þ.m.t. stoðefni fyrir ráðherra, minnisblöð og talpunkta. Talpunktarnir fyrir hádegisverðinn voru stuttir, laggóðir og vel afgerandi, enda höfðu þeir verið undibúnir rétt fyrir fund, nánast á síðustu stundu. Þar voru rök sett fram fyrir takmarkaðri stækkun til fyrst og fremst þriggja ríkja, Póllands, Tékklands og Ungverjalands – jafnvel Slóveníu, en ekki fleiri eða annarra ríkja. Gæta þyrfti að stækkunargetu bandalagsins og hafa fagleg sjónarmið í öndvegi.

Eins og áður sagði, átti þessi fundur að fara fram í fullkomnum trúnaði, svo mjög, að varla var klukkutími liðinn frá lokum hans að megnið að því sem þar fór fram var komið á forsíðu heimasíðu New York Times! Þar var sagt frá því að skoðanir um stækkun hefðu verið mjög skiptar, en tveir ráðherrar hefðu verið alveg sammála um takmarkaða stækkun til einungis þriggja ríkja, annars vegar Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og hins vegar Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra Íslands.

Einörð afstaða Halldórs gerði það að verkum að Albright varð ekki einangruð í afstöðu sinni á fundinum. Halldór gerði líka það sem ráðherrar gera jú gjarnan, hann nýtti talpunktana að ákveðnu marki, en endanleg ákvörðun var hans. Hann sleppti þannig alveg að gefa til kynna mögulega málamiðlun hvað varðar Slóveníu þegar hann tók til máls.

Niðurstaða og eftirleikur

Einhverjum kann að þykja það léttvægt að utanríkisráðherra Íslands, minnsta aðildarríkisins, hafi þarna reynst sínum bandaríska kollega haukur í horni, en svo reyndist ekki vera. Einmitt vegna þess að tveir af sextán ráðherrum voru þá þegar þetta einarðir í afstöðu sinni varð eftirleikurinn auðveldari, þó tekist væri á fram á síðustu stundu á leiðtogafundinum í Madríd rúmum mánuði síðar, dagana 8. og 9. júlí, 1997.

Hér reyndist líka vel að á milli þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddsonar, ríkti traust og sammæli í þessu máli. Báðir voru einnig einhuga um að tryggja framtíðarhagsmuni Eystrasaltsríkjanna í þessu samhengi.

Frakkar reyndu fram á síðustu stundu að fá Rúmeníu í fyrsta hópinn, en þau ríki sem m.a. annars vildu gæta framtíðar hagsmuna Eystrasaltsríkjanna töldu það ekki ráðlegt. Niðurstaðan í Madríd varð á endanum þannig að ákveðið var að taka einungis þrjú ríki inn í bandalagið í þessari fyrstu lotu. Full aðild Póllands, Tékkalands og Ungverjalands kom til framkvæmda 12. mars 1999 og tóku þau þátt í sínum fyrsta leiðtogafundi sem fullgild aðildarríki bandalagsins á 50 ára afmælisfundi bandalagsins í Washington DC dagana 24. og 25. apríl 1999.

Madeleine Albright gleymdi heldur ekki þessum fyrstu kynnum af Halldóri Ásgrímssyni. Í Sintra var hún búin að vera utanríkisráðherra Bandaríkjanna í einungis fjóra mánuði og þessi fundur henni því mjög mikilvægur. Þegar hún kom til Íslands í opinbera heimsókn í lok september árið 2000 rifjaði hún upp þessi fyrstu kynni, m.a. á blaðamannafundi í Reykjavík þar sem hún sagði m.a:

We did discuss NATO enlargement. I think this is a subject that the Foreign Minister and I have discussed on any number of occasions. We agree, the U.S. agrees, that there needs to be an open door policy, that no one can have a veto over membership, that it is important for those countries including the Baltics to understand that NATO membership is a responsibility and not a gift and that following the membership action plan it is essential to work out a way to be a really good and responsible NATO member. So our views have been very similar. I remember one of our original meetings, when we were still talking about this expansion of NATO that just took place, the Foreign Minister and I were in complete agreement and I found him a very strong and important ally. So I think we have the same approach. (Feitletrun mín)

Auk þessa má geta að á fundi Ólafs Ragnars Grímssonar, sem þá var forseti lýðveldisins, og Bill Clinton, sem þá var forseti Bandaríkjanna, þann 23. júlí 1997, eða um hálfum mánuði eftir Madrídarfundinn, fór ekki á milli mála hver afstaða leiðtoga Bandaríkjanna var til framgöngu Íslands hvað varðar stækkun bandalagsins. Eða eins og sagði í frétt Morgunblaðsins daginn eftir: „Það hefði komið skýrt fram á fundinum að Clinton forseti væri mjög þakklátur Íslendingum, ríkisstjórn, forsætisráðherra og utanríkisráðherra fyrir það mikla hlutverk sem Íslendingar hefðu gegnt í umræðunum innan Atlantshafsbandalagsins við að halda málstað Eystrasaltsríkjanna á lofti og tryggja að stækkun NATO yrði ekki með þeim hætti að hún virkaði útilokandi.“

Þessi fyrsta stækkun bandalagsins eftir að kalda stríðinu lauk gekk sem betur fer vel. Svo mjög, að fimm árum eftir leiðtogafundinn í Washington fór fram næsta stækkun og gengu þá sjö ríki inn í bandalagið þann 29. mars 2004 – Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía. Á þessum tímapunkti var bandalagið orðið annað og meira en það var fimm árum áður, enda þá hafið hið um margt afdrifaríka stríð gegn hryðjuverkum, bandalagið búið að virkja 5. grein stofnsamnings þess í fyrsta sinn í sögunni í kjölfar hryðjuverkaárasanna 11. september 2001 á Bandaríkin og aðgerðir hafnar í Afganistan sem áttu eftir að standa í næstum tvo áratugi.

Nú 25 árum síðar er ætlunin að leiðtogar bandalagsins hittist á ný í Madríd þann 28. júní næstkomandi, og þá mögulega og vonandi til þess að staðfesta að nýjustu umsóknarríkin, frændþjóðir okkar Finnland og Svíþjóð, verði boðin velkomin í bandalagið.

Leynilegi hádegisverðarfundurinn í Sintra markaði hins vegar upphafið. Ekki verður af þáverandi utanríkisráðherra Íslands tekið að frammistaða hans fyrir Íslands hönd markaði afgerandi spor í sögu stækkunar bandalagsins eftir kalda stríðið. Endanleg ákvörðun var þó aðildarþjóðanna allra, enda byggja ákvarðanir Atlantshafsbandalagsins á reglunni um sammæli.

Gaman er svo að geta þess að fyrir stuttu kíktum við saman í dýpstu iður skjalasafns utanríkisráðuneytsins, yfirskjalavörður þess Sigurður Þór Baldvinsson og ég, og eftir ekki langa leit fundum við téða talpunkta frá Sintra forðum.

Höfundur er starfsmaður utanríkisráðuneytisins (í leyfi).




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×