Skoðun

Tökum flugið með Nice Air!

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Nú í morgunsárið tók á loft flugvél flugfélagsins Nice Air frá Akureyrarflugvelli í sína jómfrúarferð og setti stefnuna á Kaupmannahöfn. Þar með er hafið áætlunarflug á milli Norðurlands og áfangastaða í Evrópu. Fagna ég því mjög og óska íbúum norðan heiða til hamingju með áfangann, áfanga sem barist hefur verið fyrir í áratugi.

Stemmningin á Norðurlandi fyrir þessu nýja fyrirtæki er slík að hún er nánast áþreifanleg hér fyrir sunnan.

Táknrænt er auðvitað að fyrsta flugvélin heitir Súlur eftir bæjarfjalli Akureyringa en táknrænt er líka að flugfélagið heitir fullu nafni Nice Air North Iceland. Það eru skýr skilaboð til landshlutans og líka skýr skilaboð til fólks og fyrirtækja um þennan möguleika til flutninga á fólki og vörum milli Akureyrar og áfangastaða erlendis.

Nú opnast möguleikar Norðlendinga að komast til Evrópu án þess að eiga lengri ferð fyrir höndum en flugið sjálft tekur, án aukakostnaðar við suðurferð og meira vinnutaps en nauðsyn krefur.

Ljóst er að þetta framtak mun sömuleiðis fjölga erlendum ferðamönnum á Norðurlandi og þar með auka tekjur og styrkja byggð með fleiri störfum í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Því er mikilvægt að uppbyggingin haldi áfram og tryggt sé að fólk geti heimsótt allar þær náttúruperlur sem Norðurland býr yfir allt árið. Einnig opnast nú möguleikar að bjóða upp á nýjan og spennandi kost hér á landi til ráðstefnuhalds með beinu flugi til Akureyrar og meðal annars glæsilegri ráðstefnuaðstöðu í Hofi.

Á Norðurlandi er stundaður öflugur sjávarútvegur og í nýliðnum mánuði átti ég þess kost að kynna mér myndarlegt fiskeldi í Öxarfirði þar sem eru áform um mikla uppbyggingu. Beint flug til og frá Norðurlandi mun þjóna hagsmunum sjávarútvegs vel og opnast nú nýir möguleikar fyrir flutning á ferskum fiski beint á markaði erlendis með flugi frá Akureyri.

Frumkvöðlakraftur og atorka heimafólks í byggðum landsins er mér ofarlega í huga nú sem áður.

Nice Air er frumkvæðisverkefni í heimabyggðinni, lofsverður vaxtarsproti sem ástæða er til að óska landsmönnum öllum til hamingju með.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×