Skoðun

Ný fram­tíð með betra sam­bandi

Sigríður Mogensen og Haraldur Hallgrímsson skrifa

Lagning á nýjum fjarskiptasæstreng á milli Íslands og Írlands, sem hófst nú í vikunni, eflir til muna fjarskiptaöryggi og stafræna samkeppnishæfni Íslands. Þá markar nýr strengur tímamót fyrir upplýsingatækni- og gagnaversiðnað hér á landi og opnar á fjölmörg tækifæri til aukinna fjárfestinga og útflutnings á þjónustu til Evrópu.

Öflugur gagnaversiðnaður hefur byggst upp hér á landi á síðastliðnum áratug. Það sem komið hefur í veg fyrir að hann væri enn fjölbreyttari og sterkari er ótryggt öryggi gagnatenginga við útlönd. Ýmiss konar þjónusta sem gagnaver sinna er háð öruggum og hröðum gagnatengingum. Starfsemi gagnavera á Íslandi hefur falið í sér bætta nýtingu í raforkukerfinu á sama tíma og iðnaðurinn hefur leitt af sér miklar fjárfestingar, skapað hátæknistörf og afleidd jákvæð áhrif á upplýsingatækniiðnað hér á landi. Fjárfestingar í gagnaversiðnaði á síðustu árum nema tugum milljarða króna.

Grundvöllur frekari sóknar

Með tengingu á nýjum fjarskiptasæstreng á milli Íslands og Írlands síðar á árinu er skapaður grundvöllur fyrir frekari sókn Íslands á sviði upplýsingatækni og stafræns iðnaðar. Í skýrslu sem unnin var af PWC fyrir Landsvirkjun, Farice, Íslandsstofu og fleiri hagaðila í gagnaversiðnaði kemur fram að Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir ýmiss konar gagnatengda þjónustu, s.s. gervigreind, ofurgagnagreiningu og ofurreikniafl. Þar kemur fram að nýr fjarskiptastrengur hafi mjög jákvæð áhrif á getu Íslands til að laða að fjárfestingu í gagnaversiðnaði og auki breidd og fjölbreytni í gagnaversiðnaði hér á landi.

Gögnin sífellt mikilvægari

Gagnaversiðnaður er í stöðugri sókn á heimsvísu enda verða gögn og upplýsingatækni sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi. Gagnamagn eykst á degi hverjum og tilheyrandi gagnavinnsla sömuleiðis. Mynd sem tekin er á síma fer beint í tölvuský og er aðgengileg hvar sem er og hvenær sem er. Sömuleiðis getum við nálgast tónlist og myndefni þegar okkur hentar fyrir tilstuðlan gagnavera. Aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hefur stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist er við að hann haldi áfram í veldisvexti.

Ísland getur svo sannarlega tekið enn ríkari þátt í þessari þróun og er nýr fjarskiptastrengur grundvöllur þess. Með nýjum streng er fjarskiptaöryggi landsins tryggt en öflugir stafrænir innviðir eru forsenda aukinnar nýsköpunar, útflutnings og fjárfestinga til framtíðar í stafrænum heimi.

Sigríður er sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins og Haraldur er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×