Skoðun

Af hverju ætti ungt fólk að setja X við D?

Einar Freyr Guðmundsson skrifar

Í gegnum tíðina hef ég oft verið spurður að því hvers vegna ég styð Sjálfstæðisflokkinn. Svarið við þessari spurningu er alltaf á sömu leið – það kemur einfaldlega ekkert annað til greina. Ástæðurnar fyrir því hafa aftur á móti þróast og breyst í gegnum árin og í því samhengi má nefna að áður en ég fór að hafa brennandi áhuga á stjórnmálum byggðist stuðningur minn við flokkinn líklega frekar á matarást heldur en stuðningi við stefnu flokksins. Í minningunni voru það allavega léttu veitingarnar sem drógu hinn 10 ára gamla mig á kosningaskrifstofu flokksins í fyrstu skiptin.

Stuðning þarf að byggja á fleiru en gæðum léttra veitinga

Eftir því sem árin liðu jókst áhugi minn á stjórnmálum verulega og ég áttaði mig fljótlega á því að fyrr en síðar þyrfti ég að byggja stuðning minn við Sjálfstæðisflokkinn á fleiru en gæðum léttra veitinga. Ég hófst því handa við að kynna mér stefnur allra flokka til að geta myndað mér upplýsta skoðun á stefnum þeirra. Að vel athuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að ég er áberandi mest sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins og hef stutt flokkinn allar götur síðan. En hvers vegna ætti ungt fólk að styðja og kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Sjálfstæðisflokkurinn treystir ungu fólki

Í fyrsta lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt það í verki að hann treystir ungu fólki til forystu. Ekki er nóg með að innan raða flokksins séu tveir yngstu kvenráðherrar sögunnar; Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, heldur staðfesta úrslit nýafstaðins prófkjörs flokksins í Múlaþingi þetta einnig, en við vorum tvö á SUS aldri sem hlutum kosningu í þau sæti sem við óskuðum eftir.

Hlutdeild í mörgum málum sem gagnast ungu fólki

Í öðru lagi hefur flokkurinn átt þátt í mörgum málum gagnast ungu fólki sérstaklega og í því samhengi er Loftbrúin frábært dæmi, en tölfræðin sýnir að hún hefur nýst ungu fólki einstaklega vel.

Ábyrg fjármálastjórn

Í þriðja lagi er eitt af aðalsmerkjum Sjálfstæðisflokksins ábyrg fjármálastjórn, en enginn aldurshópur á meira undir ábyrgri fjármálastjórn en sá yngsti. Óábyrgri fjármálastjórn fylgir oft mikil lántaka og með lántöku er verið að velta byrðum nútímans yfir á komandi kynslóðir. Það gleymist nefnilega oft í umræðum um lán að það kemur að skuldadögum og eðli málsins samkvæmt á unga fólkið mest undir því að lántöku sé haldið í lágmarki því að það verður jú líklega enn á lífi þegar skuldadagarnir renna upp.

Ungt fólk, er ekki bara best að setja X við D?

Svona mætti lengi telja og það eru í raun nánast óteljandi ástæður fyrir því að ungt fólk ætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er ávísun á betra samfélag. Það er enginn annar kostur betri en að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Höfundur er menntaskólanemi sem skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×