Skoðun

Að mörgu er að hyggja ef vel á að byggja

Ásbjörg Kristinsdóttir skrifar

Landsvirkjun á og rekur 19 aflstöðvar. Við vitum að ábyrgð okkar er mikil í að tryggja skilvirka orkuvinnslu og framþróun og verkefnin því fjölmörg sem þarf að sinna varðandi eignastýringu stöðvanna, með viðhaldi og endurbótum. Þá er líka ýmislegt er fram undan hjá orkufyrirtæki þjóðarinnar tengt aukinni orkuöflun.

Við höfum ekki setið auðum höndum undanfarin ár því á tæpum áratug höfum við gangsett tvær nýjar vatnsaflsstöðvar, eina jarðvarmastöð og reist tvær vindmyllur.

Við ætlum að mæta aukinni eftirspurn eftir grænni orku með frekari virkjunum á sviði vatnsafls, vinds og jarðvarma, auk þess sem við horfum til stækkunar- og aflaukningaverkefna á núverandi aflstöðvum.

Aukið vatnsrennsli í gegnum virkjanir Landsvirkjunar á komandi áratugum vegna aukinnar jöklabráðnunar rennur ekki óbeislað til sjávar. Á Þjórsársvæði hugum við að verkefnum sem snúa ýmist að endurnýjun á búnaði eða nýjum vélum. Þessi verkefni geta aukið uppsett afl svæðisins um allt að 260 MW. Sum þessara verkefna höfum við þegar hafið en önnur bíða næstu ára.

Við skoðum líka ýmsa nýjavirkjunarkosti. Við mat á þeim höfum við sjálfbæra þróun að leiðarljósi og leggjum áherslu á jafnvægi þriggja meginstoða hennar; efnahags, umhverfis og samfélags.

Hvammsvirkjun

Einn virkjunarkosta er Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Undirbúningur hefur staðið í rúm 30 ár og virkjunin er nú í nýtingarflokki í rammaáætlun. Hvammsvirkjun verður áttunda stöðin sem nýtir vatnsfall af Þjórsár- og Tungnaársvæði. Hún er vel staðsett með tilliti til flutnings raforku en ekki verður þörf á því að reisa nýjar flutningslínur fyrir þær 720 GWst sem þessi 95 MW aflstöð mun framleiða.

Hvammsvirkjun hefur verið staðfest á bæði aðal- og deiliskipulagi og er mati á umhverfisáhrifum lokið. Helstu sýnilegu mannvirki virkjunarinnar verður stífla, lón og frárennslisskurður og er ljóst að þessi mannvirki munu breyta ásýnd svæðisins. Við höfum við hönnun sett okkur umhverfis- og samfélagsmarkmið og höfum að leiðarljósi að vera í virku samráði við hagaðila, varðveita vistkerfi, lágmarka rask og tryggja líffræðilegan fjölbreytileika vatnalífríkis. Við höfum virkilega vandað okkurvið hönnunina. Hvammsvirkjun verður flott virkjun sem við getum verið stolt af.

Þeistareykir

Annar virkjunarkostur er stækkun jarðvarmastöðvarinnar á Þeistareykjum. Þar eru nú tvær vélar, með alls 90 MW uppsett afl. Náið samráð var haft við hagsmunaaðila við nýtingu á þessu fallega landsvæði og lögðum við okkur fram í hvívetna að vanda okkur við undirbúning og framkvæmd, svo mikið að eftir því var tekið og hlaut verkefnið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga.

Á Þeistareykjum höfum við lagt varfærna nýtingu á jarðvarma svæðisins til grundvallar og hefur reksturinn gengið mjög vel. Við erum að skoða að bæta við þriðju vélinni sem myndi auka uppsett afl um 45 MW. Þá erum við einnig með þar til skoðunar svokallaðar toppþrýstingsvirkjanir sem eru með uppsett afl 5-15 MW.

Vindmyllur

Við hjá Landsvirkjun ætlum líka að stíga næstu skref í beislun vindorku. Eftir næstum áratugar farsælan rannsóknarrekstur á tveimur vindmyllum við Búrfell erum við reiðubúin. Þar eru tveir kostir fremstir. Annars vegar 150 MW lundur nærri Búrfelli og hins vegar 100 MW lundur við Blöndustöð. Báðir hafa kostirnir fengið umfjöllun í rammaáætlun en setja þarf skýrt regluverk um vindorku ef mögulegt á að vera að mæta aukinni raforkuþörf með þessum hagkvæma virkjunarkosti.

Uppbygging innviða

Samhliða virkjanaframkvæmdum Landsvirkjunar verður gjarnan mikilvæg uppbygging innviða sem einnignýtast samfélaginu, svo sem vegagerð, brúarsmíði eða styrking á fjarsímasambandi. Á síðasta ári unnum við t.d. að gerð tengivegar frá Þeistareykjum í Mývatnssveit. Að auki höfum við ávallt lagt okkur fram við að mæta áhrifum framkvæmda á samfélagið með mótvægisaðgerðum. Gott dæmi er göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá og gerð reiðvegar á sama svæði.

Við horfum við framtíðar og byggjum á traustum grunni reynslu og færni. Við öflum orku með framsýni, sjálfbærni og öryggi að leiðarljósi.

Höfundur er framkvæmdastjóri sviðs framkvæmda hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×