Skoðun

Út­úr­snúningar pírata af­þakkaðir

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Það er ánægjulegt þegar skrifin manns ná til lesenda og mér virðist takast reglulega að fanga athygli píratans Hauks Viðars Alfreðssonar. Nú síðast birtir hann grein í tilefni þess að ég skrifaði um umkvartanir atvinnurekenda við mig varðandi flótta starfsfólks frá einkageiranum og yfir til hins opinbera. Ég varaði af því tilefni við almennri þróun í þá átt að launahækkanir hjá hinu opinbera fari fram úr hækkunum á almenna markaðnum.

Ég ætla því einungis að endurtaka það sem ég sagði og vísa jafnframt til orða Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, í sömu veru. Vilhjálmur bendir á að það séu „gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar [sem] standi undir rekstri hvers þjóðríkis.“ Undirstaða lífskjara er framleiðsla vöru og þjónustu. Ekki síst til útflutnings í okkar opna útflutningsdrifna hagkerfi. Þau verðmæti eru grunnurinn að því að við njótum heilbrigðisþjónustu og annarrar opinberrar þjónustu. Að benda á hið sjálfsagða um undirstöðu lífskjara okkar jafngildir því ekki að smætta t.d. heilbrigðisþjónustuna okkar. Enda sagði ég ekkert í þá veru. Það sama má segja um skrif Vilhjálms, en ég hef að vísu ekki rekist á greinaskrif Hauks um hann. Ef til vill vekur hann ekki sama áhuga hjá honum og undirrituð. Það er síðan hægt að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því.

Eftir að hafa yfirlætislega kallað framlag mitt „einfeldnislegt“ titlar Haukur sig mann sem „spáir annað slagið í sköttum og virðissköpun“ svo orðalag hans sé rétt eftir haft. Ég tel að Haukur hafi alveg skilið hvað ég var að segja, að hann þekki vel þessi grunnatriði hagfræðinnar, og sé viljandi að snúa út úr skrifum mínum. Og þó ég taki áhuga hans á mér og mínum skrifum fagnandi, frábið ég mér útúrsnúninga af því tagi sem hann ber endurtekið á borð um afstöðu mína í ýmsum málum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×