Fylkir fallið í fyrstu deild

Snorri Rafn Hallsson skrifar
saga fylkir

Úrslitin í deildinni voru orðin nokkuð ljós áður en lokaumferðin gekk í garð. Það eina sem eftir átti að útkljá var hvaða lið myndi falla niður í fyrstu deildina og hvaða lið myndi fara í umspil. Fylkir varð að vinna þessa viðureign gegn Sögu og treysta á að Kórdrengir myndu tapa sínum leik síðar um kvöldið til að falla ekki beint. Saga var þá þegar búið að tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni.

Fyrri leikir Fylkis og Sögu höfðu verið í Nuke þar sem Saga vann þann fyrri 16–5 en Fylkir þann síðari 16–12 þar sem Zerq var með 36 fellur. Það kom því engum á óvart að þriðji leikurinn færi einnig fram í Nuke kortinu í einhverju I-ríkja Bandaríkjanna.

Saga hafði betur í hnífalotunni og þegar Fylkir fór rakleiðis inn á sprengjusvæðið í skammbyssulotunni var Saga ekki lengi að slökkva í þeim rostann. Næstu 3 lotur féllu einnig Sögu í vil þar sem Fylkismenn voru helst til hægir en þegar þeir hröðuðu á leik sínum á nú komst Fylkir loks á blað í fimmtu lotu. Þrátt fyrir það hægði Fylkir aftur á leik sínum og tapaði næstu lotu eftir það.

Um miðbik hálfleiksins skiptust liðin á lotum áður en Saga skildi Fylki eftir í rykinu. Allir leikmenn Sögu hittu vel og unnu einvígi á meðan nokkrir leikmenn Fylkis voru full atkvæðalitlir. Nýliðarnir í Sögu, þeir WZRD og Skoon voru með flestar fellur. Fylkir náði ekki að skapa sér nein tækifæri gegn þéttri vörn Sögu og útlitið því afar slæmt fyrir Fylki þegar liðin skiptu um hlutverk.

Staða í hálfleik: Saga 13 – 2 Fylkir

Fylkir vann skammbyssulotuna í síðari hálfleik og fylgdi eftir með þeirri næstu. Náðu þeir að halda vopnum sínum og var eins og fyrst í síðari hálfleik hefði Fylkir áttað sig á hvað var í húfi. Saga svaraði um hæl og þrátt fyrir frábær tilþrif frá Zerq gafst honum ekki tækifæri til að aftengja sprengjuna í þeirri næstu. Fylki tókst þó að næla sér í þrjár lotur til viðbótar áður en Brnr kláraði leikinn fyrir Sögu.

Lokastaða: Saga 16 – 7 Fylkir

Fylkir vann því ekki einn einasta leik í þriðja hring deildarinnar og er fallið niður í fyrstu deild. Þeim hefur ekki gengið að nýta hæfileika sína nægilega vel og stilla sig saman. Saga lýkur tímabilinu í sjötta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir