Skoðun

Hvað verður um fóstur­börnin?

Guðlaugur Kristmundsson, Birna Þórarinsdóttir, Ragnar Schram og Erna Reynisdóttir skrifa

Um 400 börn hér á landi eru í fóstri. Það þýðir að barnaverndaryfirvöld hafa komið þeim fyrir hjá fósturforeldrum, ýmist til skemmri eða lengri tíma. Ástæður þess að barni er komið í fóstur eru misjafnar en öll fósturbörn eiga það þó sameiginlegt að hafa orðið fyrir áfalli og þurfa á stuðningi að halda. Barnasáttmálinn kveður á um skyldu stjórnvalda til þess að sjá barni fyrir annarri umönnun og að tillit sé tekið til stöðugleika í uppeldi barns og til þjóðlegs, trúarlegs og menningarlegs uppruna þess og tungumáls. Íslensk stjórnvöld eiga jafnframt að framkvæma athugun á afdrifum fósturbarna og hvernig þeim reiðir af í samfélaginu. Slík athugun er nauðsynleg til að meta hvort réttindi fósturbarna séu virt og gera nauðsynlegar umbætur sé þess þörf. Nú hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna ítrekað bent íslenskum stjórnvöldum á að slík athugun hafi ekki verið framkvæmd og gert við það alvarlegar athugasemdir.

Í lokatilmælum Barnaréttarnefndar SÞ til íslenskra stjórnvalda frá 2011 segir: Nefndin mælist til þess að aðildarríkið rannsaki aðlögun og árangurshlutfall barna eftir að þau fara úr umsjá annarra en fjölskyldu sinnar, sem ætti einnig að leiða af sér tilmæli um þær ráðstafanir sem gera þarf til að tryggja fulla aðlögun þeirra.

Áratug síðar endurtekur Barnaréttarnefndin tilmælin og segir: Einnig er óskað eftir upplýsingum um kannanir á afdrifum og líðan barna eftir vistun utan heimilis sem barnaréttarnefndin gaf íslenska ríkinu tilmæli um árið 2011.

Enn hefur umrædd athugun á afdrifum fósturbarna ekki verið gerð og við vitum hreinlega ekki hvernig börnunum reiðir af.

Við, undirrituð, viljum minna stjórnvöld á tilmæli Barnaréttarnefndarinnar og mikilvægi slíkrar afdrifakönnunar. Börn sem sett eru í fóstur eru með viðkvæmustu hópum barna á Íslandi og það er ekki rétt að láta kerfið sem styður við þau vera óskoðað um áratuga skeið. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Guðlaugur Kristmundsson, formaður Félags fósturforeldra

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF

Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Save the children á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×