Skoðun

Sterk fjár­hags­staða er for­senda góðrar þjónustu

Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Fjárhagsstaðan í Garðabæ er sterk, álögur lágar og skuldir hóflegar. Þetta skiptir máli enda er sterk fjárhagsstaða forsenda góðrar þjónustu. Og oftast er fylgni milli góðrar þjónustu og ánægju íbúa. Útsvarshlutfallið í Garðabæ verður áfram það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga og verður óbreytt, 13,7%. Álögum verður haldið lágum og skuldahlutfallið verður svipað og undanfarin ár. Á kjörtímabilinu höfum við lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts en fasteignamat hefur hækkað mikið og mikilvægt að horfa til frekari lækkana á álagningarprósentu fasteignaskatts.

Uppbygging heldur áfram

Í Garðabæ mun uppbygging halda áfram en íbúafjöldi fór yfir 18.000 á þessu ári. Áfram verður framboð af lóðum fyrir íbúðir og atvinnushúsnæði en mikil uppbygging er fyrirhuguð í Vífilsstaðalandi, Hnoðraholti, Urriðaholti og á Álftanesi. Á næstu sjö árum er stefnt að því að byggja hátt í 3.000 íbúðir sem verða sambland af fjölbýli, rað – og parhúsum ásamt sérbýli. Uppbyggingu fylgja fjárfestingar, vöxtur kallar á uppbyggingu innviða. Stærstu framkvæmdirnar á árinu 2022 verða í Urriðaholti við næsta áfanga í Urriðaholtsskóla auk nýs leikskóla. Fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri verður tekið í notkun 2022. Byggður verður nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk og þá verða endurbætur við skólalóðir, íþróttavelli og opin svæði. Viðhald gatna og stíga, aukin hljóðvist og fleira.

Í Garðabæ verða áfram lágar álögur á bæjarbúa á sama tíma og fjárfest er myndarlega í uppbyggingu á ýmsum sviðum. Þjónustan verður áfram góð og ekki verður dregið úr grunnþjónustu. Þetta er hægt vegna þess að sterk fjárhagsstaða er grunnurinn að góðri þjónustu.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×