Skoðun

Til hamingju Ísland!

Sigríður Hrund Pétursdóttir og Unnur Elva Arnardóttir skrifa

Það er einstakt að við skulum leyfa okkur að halda og hampa verkefni sem Jafnvægisvog FKA er til að varða veginn á jafnréttisgöngu Íslands. Ákvörðunin um jafnrétti hefur verið tekin. Einmitt núna erum við í útfærsluæfingum af fullum krafti, á mismunandi vegu og með alls kyns árangri. Það er einstakt, frábært og eftirtektarvert.

Það sem hjálpar til þegar verið er að ganga gegn hefðum, venjum og ráðandi gildum fyrri tíma er ekki einungis hins sameiginlega ákvörðun sem við höfum öll tekið heldur einnig styrkur stuðningur ólíkra hagsmunahópa. Fræðasamfélagið styður okkur öll með því að leggja til rannsóknir á jafnréttismálum og birtir niðurstöður jöfnum höndum. Hið opinbera setur lög og reglur til að varða leiðina og gerir gott um betur með því að stilla eigin innri rekstur af og lögbinda jafnan rétt í nefndum, ráðum og stöðuveitingum. Þar sem okkur gengur hvar hægast í jafnvægisæfingunum er í einkageiranum, hvort sem um er að ræða í framkvæmdastjórnum, stjórnum eða hvað þá skráðum Kauphallarfélögum. 14-2 bliknar þar við hlið – staðan er nefnilega 19-1 þar. En við höfum Jafnvægisvog FKA til að minna okkur á, styrkja og hvetja.

Ekki má gleyma að alþjóðavæðing nútímans setur Ísland sem skástræti í Alheimsþorpinu, staðsetning sem við komumst ekki undan. Nýir mælikvarðar um rekstur fyrirtækja kveða meðal annars á um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og þar skorar jafnrétti og fjölbreytni hátt. Jafnrétt og fjölbreytni eru lykilbreytur sem einblína á að fá fleiri ólíkar raddir að borðinu, hagkerfinu öllu til hagsbóta, samfélaginu til giftu og gæfusemi. Það er eitt stærsta hagsmunamál samtímans að útrýma lýðbreytum sem aldri, kyni og uppruna í atvinnulífinu til að undirbúa frjóan svörð fyrir grósku komandi tíma.

Ísland er best í heimi í jafnrétti. Það er til Íslands litið og eftir því tekið í Alheimsþorpinu. Skástrætið þykir kröftugt, hlaðið smáu og knáu fólki sem hikar ekki við að framkvæma með gleði, þolinmæði og þrautseigju. Sýnum okkur sjálfum og Þorpinu hvernig framúrskarandi flottar æfingar í jafnrétti líta út. Gangi okkur vel og góða skemmtun.

Sigríður Hrund Pétursdóttir formaður FKA

Unnur Elva Arnardóttir varaformaður FKA




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×