Skoðun

Ef það væri bara til búnaður til að telja at­kvæði með ná­kvæmum hætti

Haukur V. Alfreðsson skrifar

Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að endurtelja þurfti hluta atkvæða úr Alþingiskosningnum nú á laugardaginn. Endurtalningin leiddi svo til þess að niðurstöður kosninganna breyttust frá því sem áður hafði verið tilkynnt. Ekki er einungis um leiðinlega stöðu að ræða fyrir þá sem töldu sig vera komna inn á þing, heldur hefur einnig verið gagnrýnt að atkvæðin sem voru endurtalin voru ekki geymd og innsigluð með fullnægjandi hætti. En þarf ferlið virkilega að vera svona brothætt og háð mannlegum mistökum?

Stemming á kostnað skilvirkni og nákvæmni

Flest allir Íslendingar eru komnir með rafræn skilríki. Við höfum aðgang að sjúkraskrá okkar í gegnum internetið, við fyllum út og sendum inn skattframtöl í gegnum internetið og stundum flest alla bankastarfsemi í gegnum internetið líka. Við virðumst öll treysta tölvum og internetinu fyrir þessum mikilvægu upplýsingum. Svo afhverju notum við ekki tækifærið núna til að læra af reynslunni og færa allar almennar kosningar á rafrænt form? Það mætti útfæra það á tvo vegu. Annars vegar væri einfaldlega heimasíða sem við færum inná og myndum kjósa eftir að hafa skráð okkur inn með rafrænum skilríkjum. Hinsvegar gætum við líka haft kjörstaði áfram en við færum þar í tölvu og myndum haka við það sem við ætlum að kjósa. Eina áhættan hér væri að ef viðkomandi hakar óvart við rangan valkost, en blýanturinn er víst jafn áhættusamur þar.

Svo hver eru rökin fyrir því að nútímavæða ekki kosningakerfið? Er það svo að við verðum að hafa handtalningu á atkvæðum til þess að það geti verið stemming fram á nótt í kosningarvökum og það sé möguleigi á að mistökum? Hér á árum áður tók það fleiri klukkutíma að klára uppgjör dagsins í kauphöllum, nú með tölvutækni tekur það örfáar mínútur. Það væri borðleggjandi að nýta okkur sömu tækni. Ekkert skutl með kjörkassa eftir að kjörstöðum líkur. Enginn kostnaður við fjölda fólks að telja atkvæði fram á nótt. Nei bara nákvæmar niðurstöður í beinni svona 15 mín eftir að kjörstöðum lokar.

Höfundur vill skilvirkara ríki.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×