Rafíþróttir

Riðlarnir á heimsmeistaramótinu í League of Legends klárir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heimsmeistaramótið í League of Legends hefst þann 5. október í Laugardalshöll.
Heimsmeistaramótið í League of Legends hefst þann 5. október í Laugardalshöll. Vísir/Getty

Heimsmeistaramótið í League of Legends hefst eftir tæpar tvær vikur og eins og áður hefur verið greint frá er mótið að þessu sinni haldið í Laugardalshöll hér á landi. Nú er ljóst hvaða lið munu mætast í riðlakeppni mótsins, en dregið var í riðla fyrr í dag.

Alls munu 22 lið mæta til landsins í byrjun október, en tíu þeirra þurfa að fara í gegnum sérstaka undanriðla til að vinna sér inn laus sæti í riðlunum sjálfum. 

Riðlakeppnin samanstendur af fjórum riðlum, og í hverjum riðli eru fjögur lið. Enn er þó eitt laust sæti í hverjum riðli fyrir sig fyrir liðin úr undanriðlunum, sem eru tveir. Í þessum undanriðlum eru lið á borð við Cloud9, Unicorns of Love og DetonatioN FocusMe sem öll tóku þátt á MSI sem fram fór í Laugardalshöll í sumar.

Heimsmeistararnir í dauðariðlinum

Ríkjandi heimsmeistarar í DWG KIA hefja titilvörn sína í ansi sterkum riðli. Liðið vann sér inn þátttökurétt á mótinu með því að vinna kóresku deildina. Með þeim í riðli eru FunPlus Phoenix frá Kína og Rogue frá Evrópu ásamt einu liði úr undanriðlunum. 

FunPlus Phoenix varð heimsmeistari árið 2019 og evrópsku liðin hafa verið að hasla sér völl á stóra sviðinu að undanförnu. Við höfum séð tvö evrópsk lið í úrslitum heimsmeistaramótsins seinustu tvö ár. Það verður því fróðlegt að sjá hvort að Rogue geti strítt stóru liðunum DWG KIA og FunPlus Phoenix.

DWG KIA, eða Damwon Gaming, mætti Suning í úrslitum heimsmeistaramótsins í fyrra.Vísir/Getty

Gamalt stórveldi í B-riðli

Gamla stórveldið T1, sem var áður þekkt sem SKT eða SK Telecom T1, er í B-riðli. Liðið hefur unnið heimsmeistaratitilinn þrisvar, sem gerir það að sigursælasta liði mótsins frá upphafi.

Þeir misstu af sæti á heimsmeistaramótinu í fyrra, og koma nú inn í mótið eftir að hafa lent í þriðja sæti í kóresku deildinni.

Með þeim í riðli eru EDward Gaming frá Kína og 100 Thieves frá Bandaríkjunum ásamt einu liði úr undanriðlunum. Bæði EDward Gaming og 100 Thieves unnu sér inn sæti á mótinu með því að vinna sínar deildir.

Liðsmenn SK Telecom T1 lyfta verðlaunagripnum eftir að hafa sigrað heimsmeistaramótið árið 2016. Liðið hefur þrisvar sinnum orðið heimsmeistari.Colin Young-Wolff/Riot Games via Getty Images

Kunnugleg andlit í C- og D-riðli

Í C- og D-riðli eru þrjú af þeim fjórum liðum sem fóru í undanúrslit á MSI sem haldið var í Laugardalshöll fyrr í sumar.

Royal Never Give Up, eða RNG, frá Kína vann það mót, en þeir eru í C-riðli ásamt PSG Talon, Fnatic og einu liði úr undanriðlunum. PSG Talon féll úr leik á MSI gegn RNG og þeir munu því vilja hefna fyrir það. 

Fnatic frá Evrópu er það lið sem vann fyrsta heimsmeistaramótið í League of Legends árið 2011, en þá var mótið haldið í Svíþjóð.

Í D-riðli mætir evrópska liðið MAD Lions til leiks, en þeir komust í undanúrslit MSI í vor þar sem að þeir féllu úr leik gegn heimsmeisturunum í DWG KIA.

Með MAD Lions í riðli eru Gen.G frá Kóreu og Team Liquid frá Bandaríkjunum.

Royal Never Give Up fagnaði sigri á Mid Season Invitational, MSI, sem haldið var í Laugardalshöll í vor.Colin Young-Wolff/Riot Games Inc. via Getty Images

Undanriðlarnir hefjast þann 5. október og laugardaginn 9. október verður það orðið ljóst hvaða fjögur lið vinna sér inn laus sæti í riðlunum fjórum. Riðlakeppnin sjálf hefst svo mánudaginn 11. október.

Niðurröðun í riðla

Hér fyrir neðan má sjá hvernig liðin raðast í riðlana. Í sviga má sjá úr hvaða deild liðin koma og í hvaða sæti þau lentu.

Undanriðill A

Hanwha Life (LCK, 4.sæti)

LNG Esports (LPL, 4. sæti)

Infinite Esports (LLA, 1. sæti)

PEACE (LCO, 1.sæti)

Red Canids (CBLOL, 1. sæti)

Undanriðill B

Beyond Gaming (PCS, 2. sæti)

Cloud9 (LCS, 3. sæti) 

Unicorns of Love (LCL, 1. sæti)

Galatasaray Esports (TCL, 1.sæti)

DetonatioN FocusMe (LJL, 1. sæti)

A-riðill

DWG KIA (LCK, 1. sæti)

FunPlus Phoenix (LPL, 2. sæti)

Rogue (LEC, 3. sæti)

Laust sæti

B-riðill

EDward Gaming (LPL, 1. sæti)

100 Thieves (LCS, 1. sæti)

T1 (LCK, 3. sæti)

Laust sæti

C-riðill

PSG Talon (PCS, 1. sæti)

Fnatic (LEC, 2. sæti)

Royal Never Give Up (LPL, 3. sæti)

Laust sæti

D-riðill

MAD Lions (LEC, 1. sæti)

Gen.G (LCK, 2. sæti)

Team Liquid (LCS, 2. sæti)

Laust sæti


Tengdar fréttir

Fullyrða að heimsmeistaramótið verði haldið á Íslandi

Heimsmeistaramótið í tölvuleiknum League of Legends átti að fara fram í Kína í ár, en vegna sóttvarnaraðgerða þar í landi hefur mótið verið fært til Evrópu. Ekki hefur enn verið gefið upp í hvaða landi, en vefmiðillinn dotesports.com fullyrðir að mótið fari fram á Íslandi.






×