Skoðun

Hvað skal kjósa?

Guðjón Sigurbjartsson skrifar

Yfir helmingur kjósenda velur stjórnmálaflokk innan við mánuði fyrir kjördag og fjórði hver síðasta sólarhringinn, samkvæmt rannsóknum. Hér er því gagnlegur leiðarvísir til óákveðinna.

Efnahagsmál: Vinstri – Hægri

Flest erum við nálægt miðjunni „sósíaldemókratar“ og að mestu sammála um samfélagsgerð. Við styðjum flest frjálst atvinnulífi, félagslegan jöfnuð og jöfn tækifæri. Við viljum því blandað hagkerfi, og virka samkeppni í atvinnulífinu. Okkur greinir hins vegar á um hversu umfangsmikill ríkisrekstur á að vera hvað varðar þjónustu sem kostuð er af skattgreiðendum svo sem heilbrigðisþjónustu. Við sem erum nálægt miðjunni teljum þurfa að nýta kosti einkareksturs til að bæta þjónustu og lækka tilkostnað en þau vinstrisinnuðu telja ríkisrekstur betri.

Frjálslyndi – Íhaldssemi og tengdar skoðanir

Við sem teljumst frjálslynd erum almennt opin fyrir breytingum, styðjum alþjóðasamvinnu, erum jákvæð fyrir nýbúum og styðjum almannahag umfram sérhagsmuni. Þau íhaldssömu fara hægar í breytingar, eru skeptísk á alþjóðasamvinnu, vilja takmarka mjög fjölda innflytjenda, eru upp til hópa þjóðernissinnuð og styðja sérhagsmuni útgerðar, bænda og fleiri þó það komi niður á almannahag.

Heilbrigðismál: Opinber rekstur - Einkarekstur

Flest erum við sammála um að bæta þarf heilbrigði og heilbrigðisþjónustu og að þjónustan standi öllum til boða óháð efnahag, á kostnað skattgreiðenda. En erum ekki sammála um leiðir til að bæta þjónustuna. Þau vinstrisinnuðu telja nægja að bæta skattfé inn í núverandi opinberan rekstur. En við sem erum nálgæt miðju og þeir sem eru aðeins til hægri teljum þörf á að nýta einkarekstur þar sem því verður við komið.

Umhverfismál - Loftlagsmál

Flest viljum við koma í veg fyrir loftlagshörmungar vegna hömlulausrar hlýnunar en greinir á um leiðir og mikilvægi. Við þau frjálslyndu erum tilbúin til að gera það sem gera þarf, taka fulla ábyrgð. Við viljum endurheimta votlendi, stöðva lausagöngu búfjár, stórefla bindingu kolefnis með skógrækt, stórfelldri uppgræðslu lands jafnvel með lúpínu og með grænni orkuframleiðslu og jafnvel vindmyllugörðum á afviknum stöðum, enda fjárhagslega áhugaverðir.

Þau þjóðernissinnuðu og íhaldssömu sem verja helst sérhagsmuni bænda, eru síður til í að stöðva lausagöngu búfjár og endurheimta votlendi þó það séu ódýrustu og áhrifaríkustu aðgerðirnar. En þau eru til í vindmyllugarða og nýtingu grænnar orku frá þeim enda getur það komið hinum dreifðu byggðum vel.

Jöfn tækifæri - Jöfn útkoma

Flest viljum við að allir hafi sömu tækifæri til að vaxa, dafna, þroskast og nýta sýna hæfileika sér og öðrum til hagsbóta. Þau vinstrisinnuðustu leggja hins vegar svo mikla áherslu á jafna útkomu að þau eru tilbúin að hefta þá sem skara fram úr og taka af þeim mest af því sem þeir ná að ávinna sér, þó það komi niður á heildarútkomunni.

Stjórnarskráin

Flest viljum við nýju stjórnarskrána enda fyrsta stjórnarskráin sem unnin hefur verið hér frá grunni af lýðræðislega völdu fólki. Hún stuðlar líka að jöfnu atkvæðavægi og gerir almenningi kleift að vísa umdeildum málum í þjóðaratkvæði og fleira mætti telja. En þau íhaldssömu og þjóðlegu sem gæta sérhagsmuna útgerðar og bænda vilja fara hægt í sakirnar og samþykkja aðeins það sem kemur þeim vel þó það komi niður á almenningi.

Auðlindagjöld - Aflaheimildir

Flest viljum við að helstu náttúruauðlindir svo sem sjávarauðlindin, séu sameign þjóðarinnar og að greitt sé fyrir aðgang að þeim. Við þau frjálslyndu og markaðssinnuðu viljum að gjald fyrir afnotin ráðist á markaði. Þau þjóðernissinnuðu sem mest gæta sérhagsmuna sjávarútvegsins vilja hins vegar ákveða sjálf hversu mikið er greitt fyrir afnotin og hafa það lágt til að styggja ekki útgerðina.

Þróun atvinnulífsins – Nýsköpun

Flest viljum við öfluga nýsköpun til að takast á við verkefni framtíðar og byggja undir næga velferð og velsæld landsmanna í opnum heimi. Við þau frjálslyndu eru til í að bæta vaxtarskilyrði sprota með stöðugum alþjóðlegum gjaldmiðli, hóflegum sköttum, traustum innviðum og traustu, spillingarlausu lýðræðissamfélagi. Þau þjóðlegu og íhaldssömu sem styðja sérhagsmuni öðru fremur vilja hins vegar fara hægar í sakirnar, láta hjá líða að bæta vaxtarskilyrðin svo það komi örugglega ekki niður á gömlu ríkisvernduðu atvinnuvegunum, jafnvel þó það þýðir að færri sprotar verði að öflugum fyrirtækjum.

Þú átt leikinn, þitt er valið

Stefnur stjórnmálaflokkanna fara ekki allar eftir skýrum línum og það eru jafnvel mótsagnir innan flokka. Vonandi hjálpar þessi samantekt einhverjum til að velja góðan stjórnmálaflokk þann 25. september næstkomandi.

Höfundur er formaður Pírata í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×