Skoðun

Já, hvert ertu að fara Brynjar?

Daði Már Kristófersson skrifar

Brynjar Níelsson gerir stefnu Viðreisnar að umtalefni í grein hér á Vísi. Stefnunni finnur hann flest til foráttu. Mér er þó ekki alveg ljóst hvert Brynjar er að fara. Gott væri að fá skýringar á eftirfarandi atriðum:

1. Brynjar sakar Viðreisn um að eyðileggja fyrirsjáanleika í útgerð ef teknir verða upp nýtingarsamningar til 20-30 ára, í samræmi við stefnu Viðreisnar. Nú er fyrirsjáanleikinn ekki meiri en svo að sá hluti þorskkvóta sem úthlutað er til stærri útgerða hefur verið skorinn niður um þriðjung frá því núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og úthlutað t.d. til smábáta, byggðaaðgerða, línuívilnunar og strandveiða.

Hvernig getur meiri fyrirsjáanleiki en útgerðin hefur búið við undanfarna áratugi leitt til minni fyrirsjáanleika?

2. Viðskipti hafa verið stunduð með aflahlutdeildir (kvóta til lengri tíma) og aflamark (kvóta til skamms tíma) um margra áratuga skeið, eða síðan 1991. Sumir telja meira að segja að megnið af afaheimildunum hafi skipt um hendur á þessum tíma (sjá hér). Á þessum tíma hefur orðið mikil hagræðing og afkoma í sjávarútvegi batnað mikið.

Ef viðskipti með aflahlutdeildir hafa reynst vel hvers vegna munu viðskipti með aflaheimildir í framtíðinni rústa okkar sjávarútvegi?

3. Brynjar vill meina að sala nágrannalandanna á aflaheimildum sanni að slík sala sé stórhættuleg. Væntanlega er Brynjar þar að vísa til reynslu Færeyinga sem nær eingöngu seldu til EINS ÁRS Í SENN:

Telur Brynjar sambærilegt að selja aflaheimildir til eins árs og 20-30 ára?

4. Loks mærir Brynjar greinargerð sem ég skrifaði 2010 um fyrningarleið. Frá því þessi greinargerð var skrifuð hafa orðið umtalsverðar breytingar í sjávarútvegi. Sú veigamesta er að útgerðin greiðir nú veiðigjald.

Ef innheimtu veiðigjalds er breytt frá núverandi lögum í markaðsgjald, eins og Viðreisn boðar, hvers vegna ætti sú breyting að kollvarpa útgerð? Hlutfall gjaldsins af hagnaði er svipað í báðum lausnum, eða um þriðjungur hagnaðar. Er annar þriðjungurinn stærri en hinn? Hvers vegna?

Höfundur er varaformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×