Skoðun

Veldu þína rödd!

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Þátttaka okkar allra í kosningunum til Alþingis sem fram fara þann 25. september er mjög mikilvæg.

Fyrir fatlað fólk skiptir máli að eiga sterka rödd á Alþingi. Rödd sem talar og beitir sér fyrir sjálfsögðum mannréttindum fatlaðs fólks.

Því skiptir máli að fatlað fólk nýti kosningarétt sinn, mæti á kjörstað og veiti þeim sem röddina hafa umboð sitt til bættra lífsgæða.

Það er sannarlega margt sem þarf að laga!

Menntakerfið okkar takmarkar ennþá aðgengi fatlaðra ungmenna að menntun eftir framhaldsskólann. Það er lítill hópur kemst að, og námsvalið er ekki nógu fjölbreytt.

Við tökum þann sjálfsagða rétt af ungu fötluðu fólki að flytja að heiman og stofna sitt eigið heimili og framboð á húsnæði við hæfi er mjög takmarkað.

Við horfum upp á ungmenni sem fá engin tækifæri á vinnumarkaði vegna þess að þau fá ekki þann stuðning og þá viðeigandi aðlögun á vinnustað, sem er þó bundið í lög.

Ungt fatlað fólk þarf á rödd tækifæranna að halda.

Rödd sem leggur áherslu á jöfn tækifæri til frekari menntunar og frekari þátttöku í samfélaginu, til dæmis með þátttöku til atvinnu.

Rödd sem leggur áherslu á sjálfsögð mannréttindi, eins og til dæmis sjálfstæða búsetu fatlaðs fólks.

Rödd sem treystandi er á. Rödd sem talar fyrir lífsgæðum allra, líka fatlaðs fólks.

Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur. Það tilheyrir öllum aldurshópum og öllum samfélagshópum. Það hefur líka ólíkar þarfir og getu til þátttöku í samfélaginu. Fatlað fólk er hópur sem skiptir máli fyrir samfélagið. Því við skiptum öll máli og höfum öll eitthvað fram að færa til samfélagsins. Saman erum við fjölbreytileikinn.

Framfarir verða ekki af sjálfu sér. Þær verða þegar raddir þeirra, sem vilja sjá breytingarnar eiga sér stað, skera sig úr og knýja fram þær breytingar sem við viljum sjá.

Því skiptir máli að fatlað fólk nýti kosningarétt sinn. Ekki láta þitt atkvæði eftir liggja. Taktu þátt og leggðu þannig þitt á vogarskálarnar til þess að þín rödd heyrist á Alþingi.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli á kosningarétti fatlaðs fólks og þeim hindrunum sem það mætir. Farðu á kjosa.throskahjalp.is til að hjálpa okkur að vekja athygli á og greiða úr þessum hindrunum.

Höfundur er verkefnastjóri Þroskahjálpar, samhæfingar námsframboðs og atvinnutækifæra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×