Skoðun

Nú get ég

Indriði Stefánsson skrifar

Í æsku fékk ég stundum að „hjálpa“ pabba, stundum var verkefnið að nota tæki sem þurfti að setja í gang. Þá gat ég stýrt eða beitt tækinu undir virkri leiðsögn án þess að nokkur skaði yrði af og sagði gjarnan „nú get ég“ en um leið og eitthvað klikkaði þurfti ég hjálp til að komast aftur af stað.

Treystum sóttvarnayfirvöldum

Viðbrögð yfirvalda við Covid-19 hafa verið nokkuð sveiflukennd. Þegar farið er að ráðleggingum Þórólfs, Víðis og Ölmu gengur nokkuð vel. Þegar farið er á svig við þær ráðleggingar vill árangurinn standa á sér.

Um allann heim er það reynslan þegar ákvarðanir eru teknar á öðrum forsendum en sóttvarna, leiðir það til þess að árangurinn verður nokkuð köflóttur, á Nýja Sjálandi hefur aðeins orðið ein alvöru Covid bylgja en hér eins og víða hafa þær orðið nokkrar.

Samvinna frekar en pólitískar keilur

Það þýðir þó ekki að ekki megi gagnrýna ráðstafanir sóttvarnaryfirvalda. Sóttvarnaryfirvöld eiga að leggja til þær aðgerðir sem þau telja virka best. Það er hlutverk annarra að komast að því hvað er gerlegt. Það er mun skilvirkara að það gerist í samráði en ekki eftir á í fjölmiðlum.

Viðbrögð við ástandi eins og Covid-19 eiga ekki að vera pólitísk, þegar við blasir ástand sem hefur þetta mikil viðvarandi áhrif á líf landsmanna er það ekki tækifæri til að fella pólitískar keilur. Frekar ætti að fá alla að borðinu og allir flokkar ættu að vinna saman að lausn. Stjórnarandstaðan hefur ekki haft aðkomu að viðbrögðum við Covid, heldur hefur stjórnin haldið öllum spilum þétt að sér.

Aðgerðum fylgir ábyrgð

Þau bakslög sem komið hafa og sú fjölgun tilfella sem þeim fylgir hafa komið í kjölfar tilslakana sem oft hafa verið hraðari og meiri en sóttvarnaryfirvöld hafa lagt til. Í byrjun júlí var öllum takmörkunum aflétt og nú upplifum við þá mestu bylgju faraldursins sem við höfum tekist á við.

Ríkisstjórnin fagnaði sigri of snemma og ætlaði að eigna sér árangurinn í sóttvörnum en við hljótum að gera væntingar um að fyrir vikið taki þau ábyrgð á því sem misferst. Þegar fólk í ábyrgðarstöðu segir “nú get ég” gerum við ráð fyrir að það geti bæði klárað verkefnið og taki ábyrgð á því takist það ekki.

Höfundur er tölvunarfræðingur og frambjóðandi á lista Pírata til Alþingiskosninga 2021.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×