Skoðun

Skil­orðs­bundin lífs­hætta

Flosi Eiríksson skrifar

Á Vísi í gær var fjallað um dóm sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. júní síðastliðinn, í máli eiganda starfsmannaleigunnar 2findjob þar sem hann var dæmdur fyrir að stefna lífi og heilsu erlendra starfsmanna sinna í hættu. Eigandinn, Þorkell Kristján Guðgeirsson, lét smíða ,,svefnskápa“ fyrir erlenda starfsmenn í iðnaðarhúsnæði þar sem brunavarnir voru ekki til staðar. Þorkell, tók ekki afstöðu til sakarefnisins enda ,,málið of flókið til að hann gæti svarað já eða nei“. Samt treysti hann sér til að segja að hann hafi ekki hagnast á húsnæðinu og þetta hafi verið gert ,,í algerri neyð“ enda hafi verið húsnæðisskortur.

Þrátt fyrir veikburða yfirlýsingar um að staðið hefði til að flytja starfsmennina annað var verið að smíða fleiri svefnskápa þegar lögreglu og slökkvilið bar að garði. Yfirmenn hjá slökkviliðinu sögðu þetta eitt ljótasta mál sem þeir hefðu séð á löngum ferli. Héraðsaksóknari ákvað síðan í fyrsta skipti að ákæra í máli af þessu tagi og ber að hrósa fyrir það.

Fyrir þessa þrælameðferð á erlendum starfsmönnum, þar sem þeim var hrúgað saman í svefnsskápa í lífshættulegu húsnæði, fékk Þorkell fimm mánaða skilorðsbundinn dóm og jú, var einnig dæmdur til að greiða lögfræðingnum sínum milljón fyrir vörnina. Starfsmennirnir fengu engar bætur frá réttarkerfinu. Þeim og öðru verkafólki, innlendu sem erlendu, eru send þau skilaboð að stofna heilsu þeirra og lífi í bráða hættu verðskuldi eiginlega ekki dóm.

Ef eldur hefði komið upp hefðu þau engan kost haft á því að borga milljón kall til að láta lögfræðing bjarga sér úr hættunni. Dómurinn sýnir enn og aftur þau vinnubrögð sem fylgja oft starfsmannaleigum, og undirstrikar um leið það afskiptaleysi sem löggjafar- og dómsvald hafa löngum sýnt á þessum sviðum.

Óréttlætið öskrar á mann, að það sé metið svo af dómstólum landsins að það að stofna verkafólki í bráða lífshættu sé ómerkilegt skilorðsbundið smámál. Lífshætta á aldrei að vera skilorðsbundin.

Höfundur er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×