Skoðun

Opið bréf til mennta­mála­ráð­herra: Fag­þekkingin liggur hjá okkur

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson skrifar

„Ég fagna því að fleiri vilji taka þátt í þessari vinnu og það eru allir velkomnir að borðinu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í forsíðuviðtali við eitt iðnfélaganna í mars í fyrra. Hún hafði verið spurð hvers vegna fulltrúar launamanna hefðu ekki verið hafðir með í ráðum þegar tillögur voru mótaðar um eflingu iðn- og tæknináms. Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu ásamt ráðherra undir samkomulag byggt á þessari vinnu.

Ný reglugerð án samráðs

Ári síðar kynnti ráðuneytið nýja reglugerð, byggða á markmiðum samkomulagsins, um vinnustaðanám nemenda í iðn- og tækninámi. Reglugerðin var kynnt án nokkurs samráðs við iðnfélögin, þvert á fyrri fyrirheit. Með reglugerðinni, sem tekur gildi í sumarlok, færist ábyrgðin á því að komast á námssamning frá nemendunum sjálfum yfir á skólana og skólarnir ábyrgjast að allir sem innritast í iðnnám komist hnökralaust í gegnum námið. Ef skólunum tekst ekki að koma nema á samning hjá iðnmeistara tekur svokölluð skólaleið við. Í henni felst að skólinn sér til þess að neminn fái þjálfun, jafnvel á fleiri en einum vinnustað. Við þessa breytingu er útlit fyrir að nemendum, sem ekki komast á hefðbundinn samning, verði gert að vinna kauplaust fyrir fyrirtæki. Með þessu er verið að ryðja braut félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði ― í boði menntamálaráðherra. Iðnnemar hafa alla tíð fengið greitt fyrir sína vinnu á meðan á námssamningi eða starfsþjálfun stendur.

Fulltrúum iðnfélaganna voru kynnt drög að reglugerðinni í desember og þau skiluðu í kjölfarið sameiginlegri umsögn. Þar var farið yfir ýmis brýn álitamál, svo sem um innleiðingu rafrænnar ferilbókar sem kynnt er til leiks í reglugerðinni, mikilvæg samræmis á milli námsleiða og jafnræðis á milli fyrirtækja, sem ýmist greiða starfsnemum laun fyrir vinnu sína eða ekki eftir því hvor leiðin er farin. Reglugerðin gerir loks ráð fyrir því að horft verði til hæfni nemans fremur en vikufjölda við ákvörðun um lengd vinnustaðanámsins. Slíka grundvallarbreytingu þarf að hugsa til enda.

Iðnfélögin fái rödd við borðið

Iðnfélögin fagna allri vinnu sem miðar að því að styrkja iðn- og tækninám og viðleitni stjórnvalda til að fækka hindrunum og auka aðgengi að náminu. Nauðsynlegt er til frambúðar að tryggja fullnægjandi gæði námsins og eftirlit. Þar fara hagsmunir allra saman.

Enginn þekkir betur en starfandi iðnaðarmenn hvaða færni nemendur í iðngreinum þurfa að tileinka sér. Þeir lifa og hrærast í faginu; hafa þekkingu á réttu handbragði, efnisvali og tæknilegum nýjungum, svo fátt eitt sé nefnt. Meistarakerfið hefur gegnt lykilhlutverki í menntun iðn- og tækninema á Íslandi og skilað þjóðinni iðnaðarmönnum í fremstu röð. Það er hinn almenni iðnaðarmaður sem tekur nema undir sinn verndarvæng á verkstað og leiðbeinir honum. Hætta er á að undan því kerfi verði grafið og fagmennsku fórnað, ef ekki er vandað betur til verka þegar kemur að breytingum. Það er af þessum sökum sem mikilvægt er að iðnfélögin fái rödd þar sem ákvarðanir um grundvallarbreytingar á námsfyrirkomulagi iðn- og tækninema eru teknar.

Menntamálaráðherra hefur nú loksins, á lokametrum vinnunnar og þegar búið er að breyta fyrirkomulaginu með reglugerð, hleypt fulltrúum iðnaðarmanna að borðinu. Fagfélögunum á Stórhöfða 29-31 hefur verið boðið að leggja til fulltrúa í hópa sem eiga að undirbúa innleiðingu reglugerðarinnar. Það er ánægjuefni, enda er í mörg horn að líta. Iðnfélögin sinna hagsmunagæslu fyrir um 20 þúsund menntaða iðnaðarmenn og -konur á Íslandi. Það er löngu tímabært að fulltrúar þessa stóra og mikilvæga hóps komi með beinum hætti að mótun þessarar vinnu við framtíðarmótun iðnnáms á Íslandi.

Höfundur er formaður MATVÍS, fyrir hönd stéttarfélaga í iðn- og tæknigreinum á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×