Skoðun

Bjarni veðjar á fjór­tán fjöl­skyldur

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Á samfélagsmiðlum má sjá mynd af baksvip Bjarna Benediktssonar formans Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, þar sem hann stendur í ræðustól og horfir haukfránum augum fram í salinn. Yfir myndina er skrifað: Okkar stefna snýst um að veðja á einstaklinginn.

Og þá vaknar spurningin: Hvaða einstaklingur er þetta sem Bjarni vill veðja á?

Ekki er Bjarni að veðja börn

Það eru 365 þúsund einstaklingar á landinu og þar af eru 81.500 börn. Mér vitanlega hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei stutt börn. Flokkur lagðist gegn barnabótum á sínum tíma og hefur notað öll tækifæri til að lækka þar og skerða. Flokkurinn er á móti gjaldfrjálsum skóla og tómstundum, stóð gegn uppbyggingu leikskóla og hefur aldrei varið hagsmuni barna á nokkurn hátt. Auk þess hafa börn ekki kosningarétt, svo Bjarni er örugglega ekki að fara að veðja á börnin.

… og ekki aldraða

Þá eru eftir 283.500 landsmenn sem ekki eru börn. Þar af eru 45.500 á eftirlaunaaldri, fólk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei sinnt og lítur á sem byrði fremur en fullgilda borgara. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti almannatryggingum fyrir níutíu árum og þar með almennum eftirlaunum. Flokkurinn hefur ætíð hafnað öllum tillögum til að bæta kjör aldraðra, bjó til og hefur alltaf stutt skerðingar á tekjum hópsins. Hann tefur eins mikið og hann getur uppbyggingu á þjónustu við aldraða og eftirlaunafólk, nema ef uppbyggingin skaffar verkefni fyrir byggingarverktaka sem eru í flokknum. En heimilishjálp, heimahjúkrun, dagvist og almenn þjónustu til að auka lífsgæði hópsins; Sjálfstæðisflokkurinn er á móti svoleiðis. Fyrir hverjar þingkosningar hefur Bjarni lofa þessum hópi bót og betrun, en eftir hverjar kosningar svíkur hann þessi loforð. Það má segja að það sé eitt af lögmálum íslenskra stjórnmála. Kannski metur Bjarni það svo að hópurinn glími almennt við alvarleg minnisglöp og því skipti engu hvað er sagt við eftirlaunafólk. Svo þótt Bjarni ætli enn og aftur að veðja á að hann komist upp með að svíkja loforð gagnvart eftirlaunafólki og öldruðum; þá er það ekki svo að hann eða Sjálfstæðisflokkurinn séu að fara að veðja á fólk á eftirlaunaaldri. Nær væri að segja að hann ætli að afskrifa það.

… og enn síður öryrkja

Þá eru eftir 238 þúsund landsmenn sem eru hvorki börn né fólk á eftirlaunaaldri. Af þeim eru um 18 þúsund öryrkjar og það er hópur sem Bjarni er örugglega ekki að fara að veðja á. Bjarni persónulega, og Sjálfstæðisflokkurinn almennt, er í opnu stríði við öryrkja, heldur því fram í ræðu og riti að öryrkjar séu byrði á samfélaginu og dragi undan viðspyrnu samfélagsins með svikum og prettum. Bjarni á því örugglega ekki við um öryrkja þegar hann segist ætla að veðja á einstaklinginn

… og alls ekki atvinnulausa

Þá eru eftir 220 þúsund landsmenn sem ekki eru börn, ekki eftirlaunafólk og ekki öryrkjar. Af þeim eru 17 þúsund atvinnulausir og Bjarni er sannarlega ekki að ávarpa þá einstaklinga með fínu myndinni af sér. Bjarni hefur hafnað því algjörlega að atvinnulaust fólk eigi að hafa í sig og á, þvertekið fyrir að hækka atvinnuleysisbætur svo atvinnulausir eigi fyrir mat úr mánuðinn, geti sótt sér heilbrigðisþjónustu eða greitt fyrir tómstundir barnanna sinna. Svo Bjarni ætlar ekki að veðja á þá einstaklinga sem eru atvinnulausir. Heldur betur ekki.

… og ekki veðjar hann á námsfólk

Þá eru eftir 203 þúsund landsmenn sem ekki eru börn, ekki eftirlaunafólk, ekki öryrkjar og ekki atvinnulaus. Af þeim eru 34 þúsund landsmanna við nám í framhaldsskólum, við iðnnám eða í háskóla. Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn hafa alla tíð verið andsnúnir stuðningi við námsfólk, viljað hækka vexti á námslán og skerða þau, staðið gegn uppbyggingu námsmannagarða, verið á móti stuðningi við barnafólk í námi og þar fram eftir götunum. Í raun er Sjálfstæðisflokkurinn á því að aðeins börn af betur settum heimilum eigi að stunda nám. Flokkurinn vill að börn af heimilum verkafólks verði sjálft verkafólk og vinni verkamannavinnu í fyrirtækjum hinna betur settu. Þetta er svona meira og minna menntastefna flokksins. Bjarni ætlar sér því örugglega ekki veðja á einstaklinga í námi.

… og enn síður opinbera starfsmenn

Þá eru eftir 169 þúsund landsmenn sem ekki eru börn, ekki eftirlaunafólk, ekki öryrkjar, ekki atvinnulaus og ekki í námi. Af hinum eru 37 þúsund opinberir starfsmenn og Bjarni er sannarlega ekki að fara að veðja á þá. Hann segir að opinberir starfsmenn sói fé á meðan þau sem vinna hjá fyrirtækjum fjölskyldu hans og vina búi til fé. Þó einkum eigendur þessara fyrirtækja. Bjarni trúir að það sé salt jarðar, fólkið sem getur allt gott af sér. Bjarni vill frekar að fólk sé atvinnulaust en að það vinni hjá hinu opinbera. Í hans huga er gott að fólk vinni hjá fyrirtækjum fjölskyldu hans og vina, honum finnst það skaðlaust að fólk gangi um atvinnulaust en hann telur það stórhættulegt og vont að fólk vinni hjá hinu opinbera. Bjarni er því örugglega ekki að fara að veðja á þá einstaklinga sem vinna hjá hinu opinbera.

… og alls ekki félaga í Alþýðusambandinu

Þá eru eftir 132 þúsund landsmenn sem ekki eru börn, ekki eftirlaunafólk, ekki öryrkjar, ekki atvinnulaus, ekki í námi og ekki opinbert starfsfólk. Af þeim eru 125 þúsund félagar í Alþýðusambandinu sem Bjarni og félagar er í virku stríði við. Hann og vinir hans telja ASÍ sinn helsta óvin og stærstu hindrunina á þeirri leið sem þeir vilja fara, í átt að alræði auðvaldsins. Sjálfstæðisflokkurinn varð til þegar stjórnmál snérust um andstæðurnar í samfélaginu; annars vegar launafólk sem lifði af að selja vinnu sína og hins vegar fyrirtækja- og fjármagnseigendur sem lifðu á auð sínum. Sjálfstæðisflokkurinn var alla tíð með síðartalda hópnum í liði, þótt hann reyndi að leyna því fyrstu áratugina. Undanfarið hefur flokkurinn hætt að fela með hverjum hann stendur, hann er stoltur af því að standa með auðvaldinu og hafa ekkert í stefnu sinni sem ekki á rætur sínar hjá Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og öðrum hagsmunasamtökum hinna ríku og valdamiklu. Bjarni er því örugglega ekki að veðja á einstaklingana í Alþýðusambandinu.

… og enn síður eigendur smáfyrirtækja

Þá eru eftir sjö þúsund landsmenn sem ekki eru börn, ekki eftirlaunafólk, ekki öryrkjar, ekki atvinnulaus, ekki í námi, ekki opinbert starfsfólk og ekki í Alþýðusambandinu. Þetta er flest fólk sem á og rekur fyrirtæki. Af þeim eru um 80% einyrkjar og eigendur smáfyrirtækja sem Bjarni ætlar örugglega ekki að veðja á. Stefna hans og Sjálfstæðisflokksins er að styrkja allra auðugustu fjármagnseigendurna og allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna, sem geta ekki aukið auð sinn nema að sölsa undir sig rekstur, eignir og viðskiptavini hinna smáu. Af þessum sjö þúsund sem ekki falla undir þá hópa, sem hér hefur verið bent á að Bjarni geti ekki átt við, eru því um 5.600 sem reka smáfyrirtæki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei stutt og ætlar aldrei að styðja.

En einn er hópur sem Bjarni elskar

Þá eru eftir um 1.400 einstaklingar sem Bjarni getur fræðilega ætlað að veðja á. Þetta eru 0,5% fullorðinna Íslendinga. Það er því ljóst að ég hef verið heldur rausnarlegur við Bjarna. Sú stefna sem hann rekur; nýfrjálshyggja sem gengur út á að minnka völd almennings en auka völd og auð hinna fáu ríku; hefur sýnt sig að þjóna fyrst og fremst 0,1% hinna ríkustu, sem á Íslandi eru um 285 manns. Og innan þessa hóps er 0,01 prósentið, sem í raun leggur línurnar og hefur auðgast allra mest á tíma nýfrjálshyggjunnar. Hópur hinna allra auðugustu er kannski 30 manns á Íslandi. Og þar sem sumt af þessu fólki er í sömu fjölskyldu þá mætti eiginlega umorða heitstrengingu Bjarna svo hún hljómi trúverðuglega: Okkar stefna snýst um að veðja á fjórtán auðugustu fjölskyldurnar. Við vinnum fyrir þær. Ekki ykkur.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×