Skoðun

Heggur sú er hlífa skyldi

Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir skrifar

Núverandi ríkisstjórn stóð knarreist í upphafi kjörtímabils og sagðist ætla að berjast fyrir jafnréttismálum. Þessi mál voru forsætisráðherra svo hugleikin að hún færði málaflokkinn inn í eigið ráðuneyti.

Það er hins vegar ljóst að það er víða pottur brotinn í þessum málaflokki, miðað við þann fjölda kærumála sem hafa undanfarið unnist kæranda í vil.

Kona leitaði nýverið réttar síns fyrir kærunefnd jafnréttismála, vegna ráðningar í stöðu ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytis. Flokksbróður menntamálaráðherra hafði hlotnast starfið, burtséð frá því að hæfari kona hefði sótt um. Það er kannski rétt að nefna að í hæfisnefndinni sat einnig annar flokksbróðir, skipaður af menntamálaráðherra. Gott að hafa hauka í horni.

Í stað þess að una vel rökstuddri niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála, ákvað menntamálaráðherra af einhverjum óskiljanlegum ástæðum (eða hvað?) að stefna konunni fyrir dóm. Það er, konunni sem „varð það á“ að sækja rétt sinn, og það réttilega. Það þekkjast ekki dæmi þess að ráðherra stefni einstaklingum persónulega, sem sótt hafa rétt sinn í stjórnsýslunni með þessum hætti.

Nú liggur fyrir niðurstaða héraðsdóms og er hún afdráttarlaus. Ráðherra braut jafnréttislög. Lítið hefur heyrst frá forsætisráðuneytinu vegna þessa máls, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Eftir stendur kostnaður skattgreiðenda og brostið traust þjóðarinnar.

Því það er nokkuð ljóst að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styður aðeins jafnréttismál á tyllidögum, en ekki þegar á reynir.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×