Skoðun

Þegar byggt er á fornri frægð

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Samkvæmt árlegri ánægjukönnun íbúa 20 stærstu sveitarfélaganna eru íbúar Garðabæjar almennt ánægðir með sveitarfélagið sitt. Það er gott, því það er mikilvægt að líða almennt vel þar sem við kjósum að búa.

Það er þó áhyggjuefni að ánægja Garðbæinga undanfarin ár er að dofna, á meðan meðaltal ánægju í öllum sveitarfélögunum eykst. Eftir gott skeið, þar sem ánægjan hefur mælst mjög mikil í flestum þáttum horfum við fram á hnignun. Er þarna um marktæka lækkun að ræða í einstaka þjónustuþáttum. Við í Garðabæ verðum að skoða þá þætti betur og sjá hvernig við getum gert betur.

Ég hnaut um grein eftir bæjarstjórann minn í vikunni þar sem hann velur að ávarpa ekki raunverulega stöðu Garðabæjar í könnuninni, heldur einblínir á þá þjónustuþætti þar sem Garðabær skipar efstu sætin. Í greininni klappar bæjarstjórinn sér á öxl og segir Garðbæinga ánægðasta allra í einstaka þáttum. Hann virðist síður hafa áhyggjur af marktækri lækkun ánægju á mikilvægum þjónustuþáttum og meðal stækkandi hópa í sveitarfélaginu, til að mynda barnafjölskyldna.

Þessa könnun þarf fyrst og fremst að nýta til stuðnings við að líta inn á við og rýna með gagnrýnum augum hvernig við gætum bætt þjónustu. Við hljótum að þurfa að því taka sérstaklega alvarlega að ánægja með grunnskóla sveitarfélagsins dalar. Rímar það ekki við allt tal um að gæði skólanna sé framúrskarandi og að í Garðabæ sé allra best tekist á við krefjandi aðstæður, samanborið við nágrannasveitarfélögin, að sögn félaga minna í Sjálfstæðisflokknum við bæjarstjórnarborðið.

Tækifærin til að bæta þjónustu grunnskólanna eru víða. Skemmst er frá að segja að langt er um liðið síðan skólastefna sveitarfélagsins var rýnd. Því er kominn tími á endurskoðun ýmissa þátta er varða skólastarf, vellíðan nemenda og farsæld í leik og starfi.Og því mikilvægt að þeirri vinnu er verið að koma af stað. Starfsfólk skólanna starfar eftir þeirri sýn og stefnu sem lagt er upp með. Það er hlutverk okkar í pólitíkinni að skapa gott umhverfi sem hlúir að bestu starfsskilyrðunum. Þannig blómstrar starfsfólk skólanna okkar best. Og saman tryggjum við enn meiri ánægju.

Við höfum enga ástæðu til annars en að líta björtum augum til framtíðar en minnum okkur á að það er ekki lifað á fornri frægð einni saman. Að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu kostar vinnu, skýra stefnu og sýn fram á við í takt við tímann sem lifað er en ekki í þann sem lifað var.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans og bæjarfulltrúi í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×