Skoðun

Að rækta andlega heilsu

Anna Elísabet Ólafsdóttir skrifar

Í tilefni af alþjóða geðheilbrigðisdeginum, 10. október, er ánægjulegt að segja frá því að bæjarráð Kópavogs hefur ákveðið að nýta húsið sem kvenfélagið Hringurinn byggði árið 1925, og stendur á sunnanverðu Kársnesinu, sem Lýðheilsuhús þar sem áhersla verður lögð á geðrækt.

Húsið, sem hannað er af Guðjóni Samúelssyni, hefur frá upphafi tengst heilbrigðismálum, fyrst sem hressingarhæli fyrir útskrifaða berklasjúklinga. Nú er endurgerð hússins langt komin jafnt að utan sem innan og verður aðstaðan nýtt sem fræðslu- og þekkingarsetur þar sem lögð verður áhersla á námskeið, aðra fræðslu og færniþjálfun til að efla andlega heilsu og vellíðan. Húsið er staðsett á fallegum stað þar sem umhverfið er hlýlegt og gróið, sem eitt og sér hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu og býður upp á mikla möguleika úti við s.s. til núvitundaræfinga og hugræktargöngu.

Starfið í húsinu mun fyrst og fremst byggja á fyrsta stigs forvarnarstarfi svo sem að vinna með kvíða, einmannaleika og gagnkvæma virðingu til að allir geti fengið að vera eins og þeir eru. Þá verður stefnt að því að vinna sérstaklega með tilfinninga- og félagsfærni en nýleg skýrsla frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, sýnir að þennan þátt má styrkja verulega meðal íslenskra ungmenna. Fyrst í stað verður lögð áhersla á að vinna með börnum, ungmennum og ungu fólki og þeim sem vinna með börn og ungmenni. Þá verður líka litið sérstaklega til eldri borgara og fræðslu sem gæti hentað þeim. Með tilkomu þessa nýja Lýðheilsuhúss eða Geðræktarhúss verður því til vettvangur til að rækta andlega heilsu rétt eins og við höfum íþróttahús til að efla líkamlega heilsu.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er andleg vanlíðan ein helsta ástæða skertra lífsgæða í heiminum í dag. Að nota þetta merka reisulega hús, sem brátt verður 100 ára, til að fást við heilsufarsvanda nútímans er því jákvætt framlag til forvarna á sviði geðheilbrigðismála.

Höfundur er sérfræðingur lýðheilsumála hjá Kópavogsbæ.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×