Skoðun

Eftirlitsblæti sjálfskipaðra riddara frelsisins

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar

Tillaga Sjálfstæðisflokksins um fjölgun eftirlitsmyndavéla í úthverfum borgarinnar var felld af meirihlutanum í borgarráði í gær. Sjálfstæðisflokknum í borginni er sérstaklega umhugað um að ala á óöryggi og óánægju. Þetta mál er hluti af þeirri pólitík.

Notkun á eftirlitsmyndavélum getur haft í för með sér að fólk fer að upplifa sig sem hugsanlegt skotmark þeirra sem vilja fylgja öllum reglum með stálhnefa á meðan raunverulegir glæpir færast út fyrir sjónarsvið myndavélanna. Slíkt getur líka skapað vantraust milli íbúa og yfirvalda. Ef efla þarf öryggi eru margar betri leiðir í boði. Ofnotkun eftirlitsmyndavéla til að sefa stjórnmálamenn með eftirlitsblæti skapar falskt öryggi sem gagnast almenningi ekkert heldur þvert á móti gengur gegn hagsmunum fólks.

Það er með Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli eins og öðrum að verulegt ósamræmi er milli hljóðs og myndar. Þau segja eitt, gera annað og segja svo eitthvað allt annað og neita fyrir að hafa nokkurn tímann gert hitt. Telja sig hafa fundið upp frelsið en kalla svo ítrekað eftir að almenningur búi í eftirlitssamfélagi.

Sama sagan gildir um samgöngumálin þar sem meirihluti borgarstjórnarflokksins talar gegn framtíðinni, umhverfinu og fjölbreyttari ferðamátum en vilja frekar ,,efla strætó” eins og það sé ekki nákvæmlega það sem verið er að gera. Þau vilja bara ekki kalla það borgarlínu. Og svo talar flokkurinn á þingi og í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur fyrir samgöngusamningi á höfuðborgarsvæðinu á meðan borgarstjórnarflokkurinn er á móti. Reykjavík er harðlega gagnrýnd af sama borgarstjórnarflokki fyrir mikla skuldasöfnun en ekkert er minnst á nágrannasveitarfélögin sem eru leidd af Sjálfstæðisflokknum og hafa hlutfallslega mun hærri skuldir.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ekki er hægt að vinna með þessum flokki. Þú veist nefnilega ekkert hvað þú færð þegar þú kýst Sjálfstæðisflokkinn. Minnsti snefill af hugmyndafræði fær að víkja fyrir hentistefnu hverju sinni. Vandræðagangurinn er svo mikill að Sjálfstæðisflokkurinn endaði á því að sitja hjá við afgreiðslu eigin tillögu.

Ætla ég annars að taka undir með orðum Áslaugar Örnu, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem ég tel eiga vel við:

,,Þeir sem tala fyrir (...) auknum eft­irlits­iðn­aði og auknu regluverki geta ekki skreytt sig með frjáls­lynd­isfjöðrum. (...) Jafn­vel þótt þeir detti öðru hvoru inn á eitt og eitt mál sem kalla mætti frels­is­mál, þá fellur það í skugg­ann af stjórn­lynd­inu sem þeir boða á hverjum degi.”

Höfundur er oddviti Pírata í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×