Skoðun

Brexit og tollkvótar

Sigmar Vilhjálmsson skrifar

Forsendubrestur

Í gildi eru tollasamningar við Evrópusambandið og með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þá eru þessir tollasamningar í algjöru uppnámi.

Markaðssvæði Evrópusambandsins er 513 milljónir manna. Útganga Bretlands þýðir að 66-67 milljónir manna eru ekki lengur hluti af þessu markaðssvæði. Það þýðir að með útgöngu Breta hefur markaðssvæðið sem samningurinn nær yfir minnkað með einu pennastriki um 13%. Þessi mikli munur er klár forsendubrestur þeirra tollasamninga sem eru í gildi.

Samningur við Breta

Búið er að leggja drög að samningum við Breta um inn- og útflutning í ljósi stöðunnar en ekkert hefur heyrst um endurupptöku á samningum við Evrópusambandið í ljósi þessara miklu breytinga á markaðssvæði ESB.

Samningurinn við Breta kveður á um inn- og útflutning á vörum á milli landanna í ljósi Brexit. Þannig verður eng­in breyt­ing á gild­andi toll­um, né held­ur tolla­­laus­um við­skipt­um iðn­að­ar­­vara. Þá verða kvót­ar fyr­ir toll­frjáls við­skipti með land­­bún­að­ar- og sjá­v­­­ar­af­­urðir einnig óbreytt­­ir.

Það þýðir að búið er að gera samninga um aukin innflutning ofan á þá tollasamninga sem í gildi eru án þess að hafa á sama tíma lækkað það magn sem flytja má inn frá Evrópusambandinu.

Til upprifjunar þá kveða tollasamningar okkar við Evrópusambandið á um að við fáum að flytja út 0,17 kg. af landbúnaðarvörum á hvert mannsbarn í Evrópu á meðan Evrópusambandið má flytja inn 11,2 kg. af landbúnaðarvörum til Íslands.

Tollasamningurinn sem er í gildi er með öllu óháður afurðaverðmætum og í ljósi þess að ekkert hefur orðið af útrás mjólkurafurða, eins og samningurinn gerði ráð fyrir, þá hefur af þessum samningi hlotist gríðarlegur viðskiptahalli. Er því full ástæða fyrir Íslensk stjórnvöld að hefja viðræður á grundvelli forsendubrests. 

Nýir samningar

Nýir tollasamningar við Evrópusambandið ættu að vera í eðlilegra hlutfalli á milli markaðssvæða, hvort sem það væri útfrá afurðarverðmætum eða magni. Ef við myndum flytja hlutfallslega sama magn inn til Íslands og við megum flytja til Evrópu, þá mætti flytja inn 66 tonn frá Evrópusambandinu án tolla en ekki 3.812 tonn. Nú eða að flytja 5.725.621 tonn til Evrópu en ekki bara 8.800 tonn.

Nýr samningur, hvor leiðin sem valin yrði, gæfi Íslenskum framleiðendum tækifæri á því að fjárfesta í nýsköpun, stækkun og vöruþróun í hverri grein fyrir sig. Slíkt er til hagsbóta fyrir innanlandsmarkað.

Höfundur er talsmaður FESK, Félags eggjabænda, svínabænda og kjúklingabænda, á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×