Seðlabankinn braut jafnréttislög þegar hann réð Stefán Rafn Sigurbjörnsson sem upplýsingafulltrúa bankans á síðasta ári. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og blaðamaður á Læknablaðinu, kærði ráðninguna en RÚV greindi fyrst frá. Þetta er í þriðja sinn sem Seðlabankinn hefur gerst sekur um að brjóta jafnréttislög frá árinu 2012.
Stefán Rafn var ráðinn í stöðuna í júní síðastliðnum en hann starfaði þá sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. 51 sótti um starfið en fram kemur í úrskurði nefndarinnar að nægar líkur hafa verið leiddar að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns.
„Telur nefndin að fyrir liggi að kærandi hafi staðið umræddum karli framar varðandi fyrstu tvær hæfniskröfurnar í ráðningarferlinu, þ.e. annars vegar menntun og hins vegar reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun.“
Ekki tekist að sýna fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar
Þá segir að Seðlabankanum hafi ekki tekist að sýna fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar varðandi næstu tvær hæfniskröfur „þ.e. varðandi tungumálakunnáttu og þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, en hvoru tveggja eru þættir sem unnt er að meta með fremur hlutlægum hætti.“
Telur nefndin að þau sjónarmið sem Seðlabankinn hafi dregið fram í málinu sýni ekki fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar við ráðninguna.
„Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa.“
Segir kæruna tilefnislausa
Fram kemur í úrskurðinum að Seðlabankinn telji kæruna tilefnislausa og að honum hafi verið frjálst að velja þann einstakling sem metinn hafi verið hæfastur á grundvelli viðmiða í auglýsingu. Bankinn segir jafnframt að heildstætt mat hafi verið gert á umsækjendum og mjög vandað ferli farið fram við ráðninguna.
Úrskurðað var í málinu þann 17. desember síðastliðinn. Kærunefndin hafnaði kröfu Gunnhildar um að Seðlabankanum bæri að greiða málskostnað hennar í ljósi þess að ekki liggi fyrir hvort að hún hafi orðið fyrir kostnaði vegna málsins.