Skoðun

Fjögurra ára reglan

Bjarni Karlsson skrifar
Síðustu ár hef ég einkum starfað við sálgæslu meðfram rannsóknarnámi við HÍ. Erfitt er að segja hvort vinnan eða námið hefur kennt mér meira. Eitt sem ég hef nýlega lært af fólki og tel eiga erindi við almenning er Fjögurra ára reglan. Það sem upphaflega vakti athygli mína í hjónaráðgjöfinni var það hve algengt það virðist vera að hjón steyti á skeri í sambandi sínu einmitt þegar yngsta barnið er á þeim aldri.

Ég tel að einhver stærstu tímamót í lífi hverrar móður verði þegar um fjögur ár eru liðin frá fæðingu yngsta barnsins. Þetta kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir og líklega hefði ég ekki tekið eftir þessu ef barnabörnin mín hefðu ekki verið að fæðast hvert af öðru síðustu árin. Við karlar munum seint ná að setja okkur inn í það hvers konar framsal á sjálfum sér og eigin lífi það er að ala í sér, af sér og á sér heilt barn. Hvað þá ítrekað. Ég tek fram að þessi kenning er byggð á reynslu en ekki rannsóknum en jafnframt á samtölum við annað fagfólk sem staðfestir að það taki konu um fjögur ár að endurheimta sjálfa sig til líkama og sálar eftir barnsburð.

Ég hygg að pör mættu vel vera meðvituð um þau þöglu tímamót sem verða í lífi móður þegar yngsta barn er orðið fjögurra ára og tíma framsalsins er varanlega lokið í lífi konunnar. Þá vaknar hjá mörgum sterk þrá eftir því að lifa af alefli, finna rödd sína heyrast og eiga innihaldsríkt ástarsamband. En einmitt á sama skeiði eru hjón gjarnan komin í þægilega rútínu með svo margt, makinn áttar sig ekki á breyttum forsendum og telur hjónabandið komið í varanlegan farveg. Einmitt þá verða áföllin. Hjónaband er skip sem er smíðað á siglingu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×