Skoðun

Bakari fyrir smið

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Útlendingamálin eru viðkvæmt umræðuefni. Nóg er að horfa til Norðurlandanna til þess að sjá hvað þessi málaflokkur getur hleypt mikilli hörku í stjórnmálin. Það er því ástæða til að vanda okkur, bæði í stefnumótun í þessum málum og ekki síður í því hvernig við tölum um þau.

Mér finnst mjög miður að verða vitni að árásum sem hafa dunið á Útlendingastofnun að undanförnu. Fullyrt er fullum fetum að fólkið sem þar vinnur sé uppfullt af mannvonsku og illgirni, að það sé starfsfólkið sem í andstyggð sinni rekur fólk úr landi, allt eftir því hvernig liggur á því.

Starfsfólk Útlendingastofnunar er venjulegt fólk, svona eins og þú og ég. Verkefni þess er að afgreiða mál í samræmi við lög og reglur og á því hvílir því þung ábyrgð. En ef okkur finnst afgreiðsla þeirra ómanneskjuleg þá er það vegna þess að lögin og reglurnar eru ómanneskjuleg. Það að persónugera umræðuna í embættismönnum er mjög rangt, við eigum að beina umræðunni að stjórnmálamönnunum sem ákveða lögin og reglurnar sem gilda um málaflokkinn. Varla erum við þeirrar skoðunar að embættismenn Útlendingastofnunar eigi að vinna eftir einhverju öðru en lögum og reglum?

Við ættum síðan að ræða meira um hvernig við tökum á móti flóttamönnum, einkum börnum. Við erum rík þjóð og við hljótum að geta tryggt að þeir flóttamenn sem hingað koma fái góðan stuðning og að börn þeirra eigi sömu möguleika á að leita sér hamingju eins og þau sem af íslensku bergi eru brotin. Það er nefnilega of fátt fólk í þessu stóra landi okkar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×