Skoðun

Netblinda kynslóðin

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Ég hef lengi haft efasemdir um tölvuna og reyndar ekki síður internetið. Ég þykist samt vita að tölvan sé komin til að vera. En afstaða mín og efasemdir eru vaxandi og tengjast áföllum á netinu. Áfallasagan er í grunninn sú að á netinu hef ég verið að nálgast fólk án þess að ætla mér það. Mitt fyrsta áfall stafaði held ég af vírus sem varð þess valdandi að ég sendi út nokkur hundruð vinabeiðnir á Facebook, til dæmis nokkuð víða um réttarkerfið. Að 13 árum liðnum get ég séð jákvæðar hliðar, Facebook-síðan mín varð jú talsvert betur skreytt frægum vinum í kjölfarið. Annað áfall var fundarboð sent á hálft stjórnkerfi Íslands og starfsmenn Reykjavíkurborgar. Man enn kvíðann þegar tugir tölvupósta tóku að berast um mætingu á minn eigin litla þjóðfund.

Og í sumar gerði ég ákveðinn tæknifeil og sendi brúðhjónum aldarinnar á Balí skilaboð. Dóttir mín hafði sent mér fallegar myndir úr brúðkaupsferðinni og nefnt hversu skemmtilegt væri að brúðkaupsferðin væri á sömu slóðum og við vorum á. Auðvitað fannst mér það líka og svaraði dótturinni, að ég taldi, og benti á að við hefðum nú verið mættar til Balí á undan þeim með orðunum: Hermikrákurnar :) Skilaboðin fóru auðvitað beint til nýgiftu konunnar sem hefur kannski legið á strönd á Balí með bóndanum þegar miðaldra kona í Smáíbúðahverfinu sendi nokkuð mislukkaðan brandara í ranga átt. Viðleitni minni til að biðjast afsökunar, sem var jafn hallærisleg, var hins vegar óskaplega vel tekið. Vaxandi hræðslan er veruleiki miðaldra og netblinda fólksins. Faxtækið, borðsíminn og dvd- og geislaspilarinn, okkar tækni, er fortíðin ein og við blasir hin svokallaða framtíð.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×