Skoðun

Nýsköpun í náttúruvernd

Hildur Björnsdóttir skrifar
Í lok nítjándu aldar blasti óvenjulegur umhverfisvandi við stórborgum heims. Tugþúsundir dráttarklára sáu um fólksflutninga, en þeim fylgdi ótæpilegt magn af hrossaskít. Dagblaðið Times birti dómsdagsskáp. Innan 50 ára yrðu götur Lundúna þaktar nærri þriggja metra lagi af hrossaskít. Til þess kom þó aldrei. Árið 1908 kom til sögunnar fyrsta fjöldaframleidda bifreiðin. Nýsköpun leysti af hólmi dráttarklárinn, ferðamynstur breyttust og þriggja metra skítur þrengdi aldrei að strætum Lundúna.

Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur 70-90% nauðsynlegra aðgerða í loftslagsmálum bundin sveitarstjórnarstiginu. Hér gegna sveitarstjórnir því lykilhlutverki.

Reykjavíkurborg stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Umhverfisvænni samgöngur verða þungavigtarþáttur á þeirri vegferð. Um aldamótin fylgdi hestknúnum samgöngum umhverfisvandi. Í dag fylgir vélknúnum samgöngum umhverfisvandi. Sem fyrr liggur lausnin í nýsköpun – orkuskipti og almenningssamgöngur munu gegna lykilhlutverki í átt að kolefnishlutleysi. Hér þarf borgin að tryggja frjóan jarðveg fyrir tækni og nýjar lausnir.

Í vikunni sem leið samþykkti borgarráð helmingsfækkun bensínstöðva í borgarlandinu, enda fádæma fjöldi stöðva í borginni miðað við íbúatölu. Samhljómur var um þá tillögu Sjálfstæðismanna að ná þessu metnaðarfulla markmiði fyrir 2025. Það er jákvætt skref í rétta átt.

Reykjavíkurborg er í kjöraðstöðu til að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Aðgangur að hreinni íslenskri orku ætti að tryggja okkur forystu í orkuskiptum. Smæðin ætti að tryggja okkur forystu í kolefnishlutleysi. Borgin getur gert miklu betur.

Mýmargir telja aukna áherslu á náttúruvernd ógn við atvinnulífið. Nýsköpun, atvinnuuppbygging og náttúruvernd eiga þó margvíslega samleið. Við eigum að skapa farveg fyrir þekkingu og hugvit – fyrir nýsköpun og lausnir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í því felast tækifæri til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar – en ekki síst tækifæri til náttúruverndar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×