Skoðun

Ósamræmi í lagaframkvæmd

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Þann 19. desember 2017 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að tveir lögfræðingar, sem sótt höfðu um embætti dómara við Landsrétt en ekki fengið, skyldu fá miskabætur vegna þess. Var talið að skilyrði laga um að þeir hefðu mátt þola „meingerð“ væri uppfyllt. Átti dómsmálaráðherra að hafa drýgt hana. Það var samt ekki ráðherrann sem hafði skipað í þessi embætti heldur Alþingi. Ráðherrann hafði ekki, svo vitað sé, hallað einu orði á þessa pilta. Hann gerði hins vegar tillögur um aðra en þá sem dómaraelítan hafði viljað fá. Þó að hann hafi í þessu efni farið eftir skýrum lagabókstaf varð að hirta hann fyrir.

Í gær, þriðjudaginn 6. mars, synjaði sami dómstóll konu um miskabætur. Hún hafði ranglega verið ákærð fyrir manndráp í starfi sem starfsmaður á sjúkrahúsi, en sýknuð af ákærunni. Aðförin að þessari konu hafði valdið henni og ástvinum hennar miklu hugarangri og miska, eins og nærri má geta. Skilyrði laganna um meingerð var ekki talið uppfyllt.

Talið hefur verið að gæta þurfi samræmis við beitingu laga í dómaframkvæmd. Þegar kenning um það var boðuð mannfólkinu var hins vegar ekki tekið fram að dómstólar mættu víkja frá kröfunni um samræmi þegar þeir teldu nauðsynlegt til að gæta valda sinna við að ákveða hverjir skyldu verða nýir dómarar í landinu. Misræmið sem hér er á ferðinni á því ekki rót að rekja til kímnigáfu dómaranna, eins og menn gætu haldið. Dómarnir frá desember 2017 voru bara afkvæmi valdabaráttu dómaraklíkunnar við Hæstarétt. Þetta ættu menn að hafa í huga ef þeir telja sig þurfa að sækja miskabætur í hendur ríkisins fyrir að hafa verið beittir ólögmætri meingerð.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×