Skoðun

Skattar og jöfnuður

Oddný Harðardóttir skrifar
Alþýðusamband Íslands hefur í rúm 100 ár barist fyrir mikilvægum jöfnunar- og velferðarmálum í samfélagi okkar. Í því sambandi má nefna almannatryggingar, orlofsrétt, atvinnuleysistryggingar, fæðingarorlof, vökulögin, launajafnrétti og margt fleira sem sátt er um að telja sjálfsögð réttindi, en þurfti svo sannarlega að berjast fyrir.

Í yfirstandandi kjarabaráttu leggur ASÍ áherslu á að skattkerfinu verði beitt til aukins jafnaðar, að barnabótakerfið verði styrkt og að á húsnæðisvandanum verði tekið af festu með aðgerðum sem virka. Skattabreytingar undanfarinna ára hafa verið launafólki með lágar- og meðaltekjur í óhag. Það sýna öll gögn.

Að sama skapi hefur hátekju- og stóreignafólk hagnast verulega á þeim sömu breytingum. Bótakerfin hafa líka markvisst verið veikt. Upphæðin sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu að verja til barnabóta í ár er að raungildi tæplega sú sama og samþykkt var fyrir árið 2013, síðasta ár síðustu vinstri stjórnar hér á landi.

Á undanförnum sex árum hafa vel á annan tug þúsunda fjölskyldna dottið út úr kerfinu vegna grimmra tekjutenginga og skerðinga og enn fleiri hafa dottið út úr vaxtabótakerfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir hæla sér af því að um 2.000 fleiri fjölskyldur fái barnabætur í ár en í fyrra. Það er dropi í hafið og skammarlega lítið skref. Nauðsynlegt er að gera miklu betur, enda fá fjölskyldur með meðallaun engar barnabætur. Og fæðingum fækkar á meðan eldra fólki fjölgar.

Samfylkingin styður skattahugmyndir ASÍ. Verði unnið eftir þeim við útfærslu breytinga á skattkerfinu mun jöfnuður aukast á Íslandi. Það er ekki aðeins til góðs fyrir láglauna- og meðaltekjufólk sem fær fleiri aura í veskið og ekki aðeins gott fyrir ungar fjölskyldur og þá eldri sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar – heldur mun allt samfélagið hagnast og verða betra og réttlátara. Rétt eins og aðrar samfélagsumbætur hafa gert sem ASÍ hefur barist fyrir og siglt í höfn.

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×