Skoðun

Á skíði fyrir sumarbyrjun

Katrín Atladóttir skrifar
Skíðasvæðin á höfuðborgarsvæðinu hafa setið á hakanum frá því í hruninu. Nú er svo komið að fjölskyldur í Reykjavík keyra til Akureyrar til að kenna börnunum sínum á skíði og snjóbretti. Tíðarfarið í vetur hefur vissulega ekki hjálpað, en með minniháttar fyrirhöfn væri hægt að hafa skíðasvæðin opin mun oftar.

Örfáum vikum fyrir kosningar í fyrra skrifuðu sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Garðabær, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, undir samkomulag sem felur í sér að á næstu árum verði ráðist í endurnýjun á skíðasvæðunum. Þar kemur fram að á árinu skuli ráðast í snjóframleiðslu í Bláfjöllum.

Þessi grein er rituð í þeim tilgangi að minna þessa sömu stjórnmálamenn á skíðasvæðin okkar í borginni. Útivera í ómengaðri náttúru er hið besta mál. Hún er sögð draga úr streitu, kvíða og reiði, vekja hjá okkur góðar tilfinningar og bæta heilsu. Það er ekki að ástæðulausu að einn mælikvarði á gæði og lífvænleika borga er aðgengi að hreinni náttúru og útivist.

Reykjavík hefur alla burði til að vera framarlega á þessu sviði. Við höfum frábær útivistarsvæði í borginni. Skíðaíþróttin er ein sú besta þegar kemur að samveru. Hana er hægt að stunda frá því börn geta gengið og fram eftir öllu. Flestar íþróttir eru þannig að þú nýtur þeirra helst með jafnöldrum eða einhverjum sem er svipaður að getu, en þegar kemur að skíðum geta allir notið saman, óháð aldri og getustigi.

Loksins hefur sést í hvítan snjó í borginni. Desember 2016 var snjólaus en opnað var í Bláfjöllum um miðjan janúar 2017 og rættist vel úr vetrinum eftir það. Við skulum vona að svo verði líka í ár svo við getum öll skemmt okkur vel á skíðum fram eftir vori.

Drífum í því að setja upp búnaðinn í Bláfjöllum líkt og lofað var. Fyrir fólkið í borginni.



Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×