Skoðun

Hvernig fannst mér skaupið?

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Það er eitthvað skemmtilegt við það að Íslendingar hefji hvert nýtt ár á því að rökræða um það hvað sé fyndið og hvað ekki. Árið endar á skaupi og byrjar á umræðu um skaup. Það er fastur liður. Hvernig fannst þér skaupið? Það er lykilspurningin alla fyrstu daga allra nýrra ára á Íslandi. Alltaf. Og sumir segja frábært. Aðrir slá úr og í. Einhverjir fórna höndum þungbúnir og fussa.

Skaupið er pikkfastur punktur í tilveru þjóðarinnar. Verði hrun. Verði náttúruhamfarir. Verði pólskipti. Alltaf mun samt verða skaup. Það verður að vera skaup. Annars klárast ekki ár. Það þarf að hlæja að því sem gerðist á árinu. Pota í hneykslin. Herma eftir stjórnmálafólkinu. Gera upp. Hæðast.

Ég veit að það er ekki auðvelt að axla þessa ábyrgð, að semja áramóta­skaup. Ég er fullur aðdáunar á þeim sem taka þetta að sér. Ég var einu sinni einn af höfundum skaups, árið sautjánhundruð og súrkál. Það er skemmst frá því að segja að það skaup var af mörgum talið verulega slæmt. Ég sjálfur, óþroskaður eins og var og ómálefnalegur, reyndi að bera hönd fyrir höfuð mér í blaðaviðtali í kjölfarið með því að halda því fram að engir af mínum bröndurum hafi verið notaðir. Ég hoppaði samviskulaust af sökkvandi skipi.

Órannsakanlegir vegir

Ég var meiri kallinn. Út af þessari reynslu hef ég sem sagt æ síðan haft ríkan skilning á stöðu höfunda skaups. Það er vægast sagt drulluerfitt að vera fyndinn. Þetta veit ég. Dæmi: Ég set sjaldan færslur á Facebook. Í upphafi árs hljóp þó í mig galsi og ég ákvað að kýla á færslu. Ég var uppi í bústað með fjölskyldunni og við borðuðum seint. Ég grillaði um ellefu leytið. Í svarta myrkri og dumbungi setti ég með annarri hendi, og með grilltöng í hinni, eftirfarandi færslu á internetið með álkulegri sjálfu: „Janúar og maður er bara úti á stuttermabolnum að grilla.“ Mér fannst þetta ógurlega fyndið. Það tísti í mér. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að útskýra hvað það var sem mér þótti fyndið við þetta, en líklega var það plebbaskapurinn. Íslendingurinn.

Í einfeldni minni bjóst ég auðvitað við að vinir mínir á alnetinu skynjuðu undireins húmorinn og settu hláturkalla við færsluna, en það gerðist ekki. Ég fékk bara læk, eins og það væri sérstaklega aðdáunarvert að ég væri úti að grilla, og stöku menn ræddu um veðrið og að líklega myndi það versna. Enginn hló. Ég ákvað að láta þetta á engan hátt snerta mig tilfinningalega. Það er minn réttur að vera gripinn galsa og setja einkahúmor á fésið. En lærdómurinn var þessi, enn og aftur: Vegir húmorsins eru órannsakanlegir. Þetta er ekki öllum gefið.

Margt fyndið

Að því sögðu — og hafandi tekið hatt minn ofan fullur af aðdáun og skilningi fyrir grínistum þjóðarinnar — ætla ég að fjalla stuttlega um skaupið. Mér fannst það ágætt. Ég hló um það bil tíu sinnum upphátt. Það telst mjög gott. Ég man eftir skaupum þar sem ég hef bara hlegið þrisvar, og varla upphátt. Meira svona hnus út um nefið. En þetta skaup var fyndið.

Atriðið með hommunum var gæsahúð. Epískt atriði, burtséð frá faglegum sjónarmiðum blóðlækna í kjölfarið. Og Hjálparsveit skáta í Kópavogi var gargandi snilld, enda það mál allt saman hreint dauðafæri fyrir skaupara. Klaustursenan var la la. Kannski var of vandasamt að toppa raunveruleikann. Mér fannst Víkingur þó mjög spaugilegur á svipinn sem Bergþór Ólafsson og Gunnar Hansson líka og Sólveig. Skemmtilega upptendruð öll og örvingluð. Og Hannes Óli sem Sigmundur steinliggur alltaf. Þvílíkur lukkupottur fyrir þann góða leikara að fá þetta árlega gigg. Það er eiginlega orðið atriðið í sjálfu sér. Spurning um að finna næst leikara sem getur leikið Hannes að leika Sigmund.

Smá umhugsunarefni

Eitt er þó farið að fara aðeins í taugarnar á mér varðandi skaupið, svona almennt. Þetta er stigvaxandi óþreyja. Ég ætla að losa mig við hana með því að henda henni hér með út í kosmosið. Mér finnst pólitíkinni orðið smá ofaukið í skaupum. Hún getur verið sundrandi og leiðinleg.

Ég veit ekki hvenær það gerðist, en mér finnst eins og það hafi verið skaup upp úr aldamótum sem olli straumhvörfum í þessum efnum. Það varð allt í einu lenska að vinstri menn gæfu hægri mönnum á baukinn, og jafnvel að höfundar og leikstjórar settu sig á háan hest í samfélagsmálum. Afleiðingin er sú að fólk er farið að taka eftir því að Garðbæingar upp til hópa eru úti að sprengja flugelda á meðan skaupið er. Þeir eru hættir að horfa. Það er ekki gott. Garðbæingar eru líka manneskjur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×