Skoðun

Minnissjúkdómar

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Minningar tengja okkur við vini og ástvini. Þess vegna tökum við ljósmyndir, geymum alls konar hluti á hinum og þessum stöðum í híbýlum okkar og erum alltaf að segja sögur. Við erum vegna þess að við munum. Það er uppsöfnuð og varðveitt reynsla okkar sem veldur því að við getum ráðið í umhverfið, fundið öryggi í samfélagi við fólk og jafnvel gert okkur í hugarlund atburðarás áður en hún verður. Þess vegna eru fáir sjúkdómar jafn þjáningarfullir og minnissjúkdómar. Einstaklingur sem man ekki sögu sína er sviptur sjálfum sér því það býr í mannlegu eðli að safna sögum, varðveita minningar og reynslu.

Fjölskylda sem ekki rifjar upp og segir sögur gliðnar með tímanum. Við sem höfum átt minnissjúkan ástvin vitum hvað það er langt og átakamikið sorgarferli að sjá hinn veika hverfa hægt en ákveðið inn í græna landið sem tilheyrir ekki okkur. Við verðum vitni að því á löngum tíma hvernig vöggugjafirnar eru teknar í burtu og sameiginleg saga þurrkast út og við sitjum jafnvel með minningar sem ekki er hægt að deila með öðrum. Það verða einmana minningar.

Ég heyri stundum þá fullyrðingu að það sé til lítils að heimsækja heilabilaða einstaklinga af því að þeir muni ekkert. En það er eitt sem aldrei þurrkast út, það er þörfin fyrir nánd. Ástvinur sem man ekki lengur þarf áfram nánd og umhyggju. Ég hef líka lært það að kærleikur, þolinmæði og húmor eru eiginleikar sem hjálpa í glímu við minnissjúkdóma. Og til að skapa öryggi er mikilvægt að vera ekki í stöðugum leiðréttingum heldur leiða samtal og nærveru inn á kunnuglegar brautir. Gamlar hefðir, tónlist og uppáhaldsmatur eru verkfæri sem gott er að styðjast við. Gleymum ekki hinum gleymnu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×