Skoðun

Ríkið getur lækkað vexti

Sigurður Hannesson skrifar
Háir vextir, dýrt og okur eru þau orð sem komu oftast fyrir í niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup þar sem spurt var um hvaða þrjú orð koma fyrst upp í hugann til að lýsa bankakerfinu á Íslandi. Þetta eru stór orð en fyrir þeim er innistæða.

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað talað fyrir hagkvæmara og skilvirkara fjármálakerfi. Háir vextir hér á landi í samanburði við önnur lönd koma niður á samkeppnishæfni fyrirtækja sem þurfa að fjármagna sig á innlendum fjármálamarkaði. Á þetta er bent í skýrslu um samkeppnishæfni og í skýrslu um atvinnustefnu fyrir Ísland sem SI hefur gefið út.

Í nýútkominni hvítbók um íslenska fjármálakerfið kemur fram að útlánavextir íslensku bankanna eru mun hærri en útlánavextir banka í nágrannalöndunum. Fyrir jafn hátt lán þarf að greiða margfalt hærri vaxtagreiðslur í íslenskum banka en hjá erlendum bönkum. Munurinn kemur niður á samkeppnisstöðu og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja.

Fram kemur í hvítbókinni að meðalvextir útlána íslensku bankanna voru í fyrra 5,8% en meðalvextir skulda bankanna 3,2%. Á því ári var því 2,6 prósentustiga munur á meðaltalsvöxtum vaxtaberandi eigna og skulda íslenskra banka. M.ö.o var álagning íslensku bankanna 45% í fyrra. Háir vextir útlána bankanna skýrast því að mjög stórum hluta af þessari háu álagningu þeirra.

Í hvítbókinni er rætt um hvað skýri þessa álagningu íslensku bankanna. Samkvæmt niðurstöðunum skýrir rekstrarkostnaður, sem að helmingi er launakostnaður, álagninguna að mestu. Auk þess skýra sértækir skattar og töluvert miklar eiginfjárkröfur álagninguna.

Greiningin er áhugaverð því hún sýnir hvaða leiðir megi fara til að lækka vexti hér á landi og bæta samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs. Íslensku bankarnir eru að mestu í eigu ríkisins auk þess sem ríkið mótar laga- og reglugerðarumgjörð þeirra. Það er ríkisins, sem eiganda bankanna, að beita sér fyrir því að hagræða og auka skilvirkni í bankaþjónustu og skapa þannig skilyrði fyrir lægri innlendum vöxtum til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×