Skoðun

Biðmál í borginni

Hildur Björnsdóttir skrifar
Í kosningasjónvarpi árið 1998 fjallaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, um stöðu biðlista á leikskólum Reykjavíkurborgar. Leikskólamál voru kosningamál og 1.600 börn sátu í biðstöðu eftir leikskólaplássi.

Í kosningasjónvarpi árið 2018 fjölluðu frambjóðendur um stöðu biðlista á leikskólum Reykjavíkurborgar. Leikskólamál voru kosningamál og 1.600 börn sátu í biðstöðu eftir leikskólaplássi. Fjöldi barna á biðlistum borgarinnar var sá sami og tuttugu árum fyrr.

Fulltrúar Samfylkingar í borgarstjórn hafa ítrekað gert lítið úr biðlistavanda leikskólanna – vandi 1.600 biðlistabarna væri enginn þar sem 1.300 börn hefðu fengið boð um leikskólavist í ágúst. Boðið var þó auðvitað háð fyrirvara um mönnun leikskólanna. Boðið fól líka í sér minnst hálfs árs bið eftir leikskólavist. Hálfs árs tekjumissir og fjarvera frá vinnu er flestu ungu fjölskyldufólki þungbær.

Nýlega kom fram að minnst tvö hundruð leikskólakennara vantaði til starfa í Reykjavík. Illa hafi gengið að manna leikskóla Reykjavíkurborgar. Nýliðun í stétt leikskólakennara gangi hægt og hlutfall faglærðra væri hvergi lægra en í Reykjavík. Við blasti vandi fyrir fjölmargar fjölskyldur.

Í ljósi tíðindanna kölluðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði eftir upplýsingum um stöðu ráðningarmála á leikskólum borgarinnar. Í svörum skóla- og frístundasviðs kom fram að allir leikskólar sem opnað hefðu eftir sumarleyfi væru fullmannaðir. Það væri því enginn þekktur mönnunarvandi að svo stöddu.

Það skaut því skökku við þegar foreldrar barna á leikskólanum Steinahlíð fengu samdægurs erindi þess efnis að börn þeirra gætu ekki hafið leikskólavist vegna mönnunarvanda. Ætla má að staðan verði sú sama á fleiri leikskólum borgarinnar. Engar markvissar aðgerðir í sjónmáli.

Það er ólíðandi að tuttugu árum síðar standi biðmál í borginni nokkurn veginn í stað. Fólksfjölgun hefur vissulega verið einhver á tímabilinu, en þó ekki nema tæp 19%. Fjölmörg framfaraskref hafa verið stigin í jafnréttisbaráttunni. Konur hafa rutt sér til rúms á vinnumarkaði og meirihluti fjölskyldna treystir á starf leikskóla. Þeir eru viðurkenndur hluti af grunnþjónustu sveitarfélaga og eru nú skilgreindir sem fyrsta skólastigið. Leikskólamál eru forgangsmál – þau eru jafnréttismál – en meirihlutinn hefur sofið á verðinum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×