Skoðun

Framfarir í átt að frelsi

Katrín Atladóttir skrifar
Reykjavíkurborg er full af bílum. Borgarbúar þurfa að komast til vinnu, koma börnum í skóla og fara í búðir. Svo ekki sé talað um skutlið á æfingar og í ýmsar frístundir.

Bílar veita okkur lífsgæði, en auðvitað eru ekki bara kostir við þennan samgöngumáta. Langar raðir á helstu álagstímum þýða tapaðar samveru- og vinnustundir ásamt aukinni mengun. Á milli ferða bíða þeir óhreyfðir og taka pláss sem annars mætti nýta undir fleiri íbúðir, þjónustu eða almenningsrými. Á mörgum heimilum eru fleiri en einn bíll. Tugir þúsunda bíla standa óhreyfðir stóran hluta sólarhringsins í Reykjavík einni.

Í dag nýta borgarbúar leigubíla helst við sérstök tilefni, svo sem skemmtanir, en síður sem valkost í almenningssamgöngum. Kannski væri því öðruvísi háttað ef verðið væri lægra, þjónustan sveigjanlegri og samkeppnin meiri.

Nýlega skilaði starfshópur um endurskoðun á regluverki um leigubílaakstur niðurstöðum sínum. Meðal annars leggur hópurinn til að fjöldatakmarkanir akstursleyfa verði afnumdar. Leyfum hefur ekki fjölgað að ráði síðan 1995 þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna. Þá leggur hópurinn til að leggja af skyldu bílstjóra til að tilheyra leigubílastöð. Sú skylda er eitt af því sem kemur í veg fyrir að farveitur eins og Uber og Lyft ryðji sér til rúms hér á landi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur tekið ákvörðun um að hefja undirbúning frumvarps til laga um leigubíla fyrir haustþing 2019, byggt á niðurstöðum starfshópsins. Ég fagna því og tel mikið framfaraskref. Mikilvægt er að nýjum aðgangshindrunum verði ekki bætt við í stað þeirra sem teknar verða út.

Leigubílar koma ekki í staðinn fyrir alla einkabíla, ekki frekar en strætó eða hjól. Með auknu frelsi á leigubílamarkaði mætti gera notkun þeirra að raunhæfari valkosti. Þannig myndi samgöngukostnaður almennings lækka, ferðatími styttast, nýting á innviðum og umferðarmannvirkjum batna, mengun minnka og umferðaröryggi aukast.

Vonandi ganga þessar breytingar í gegn og auka lífsgæði Reykvíkinga til framtíðar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×