Skoðun

Lungu borgarinnar

Hildur Björnsdóttir skrifar
Þéttbýlismyndun hefur vaxið á undanliðnum áratugum. Afgerandi meirihluti Evrópubúa er nú búsettur í borgum. Búsetu í þéttu borgarumhverfi fylgja fjölmargir kostir, en búsetan takmarkar gjarnan beinan aðgang að óspilltri náttúru. Hún veldur áreiti með aukinni hljóð- og loftmengun. Það er því hverjum þéttbýlingi nauðsynlegt að eiga greiðan aðgang að grænum svæðum. Þannig má stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu en ekki síður bættum loftgæðum. Þetta hefur alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfest. Með hliðsjón af mannfjöldaspám og sífellt þéttari byggð verður hlutverk grænna svæða í borgarlandinu enn veigameira. Það vöknuðu því réttmætar áhyggjur þegar tillögur að deiliskipulagi við Elliðaárnar voru nýverið kynntar í skipulagsráði. Þar urðu ljós þau áform meirihluta borgarstjórnar að hefja umfangsmikla uppbyggingu mannvirkja – og lagningu hátt í 350 bílastæða – á grænu svæði við Elliðaárnar.

Í gærdag bárust svo fregnir af lagningu nýrra hitaveitu­stokka undir Elliðaánum. Framkvæmdin mun óhjákvæmilega leiða af sér mikið umhverfisrask og hafa í för með sér neikvæð áhrif á viðkvæmt lífríki dalsins. Þar bættist grátt ofan á svart. Fjölmargar erlendar borgir hafa staðið frammi fyrir sama freistnivanda – að hefja húsnæðisuppbyggingu á opnum grænum svæðum. Um tíma voru uppi hugmyndir um uppbyggingu húsnæðis í Central Park. Þær tillögur hlutu ekki brautargengi. Sem betur fer. Það er hættulegt að stíga fyrsta skrefið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn telja rétt að horfið verði frá áformum um uppbyggingu við Elliðaárnar. Við leggjum til að Elliðaárdalurinn og nærliggjandi svæði verði friðlýst eftir ákvæðum náttúruverndarlaga. Núverandi staða Elliðaárdals í skipulagi kemur hvorki í veg fyrir uppbyggingu húsnæðis né lagningu bílastæða í námunda við Elliðaárnar. Þessu þarf að breyta.

Stöndum vörð um viðkvæmt lífríki Elliðaárdalsins. Gætum að grænum svæðum í borgarlandinu. Vinnum að bættum loftgæðum og gróðursetjum fleiri tré. Tryggjum að uppbygging svæðanna snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar. Stöndum vörð um veigamikið hlutverk Elliðaárdalsins – og annarra grænna svæða – þau eru lungu borgarinnar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×