Skoðun

Markaðsdagur í Bolungarvík

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Eitt af því sem er svo sjarmerandi við íslenska sumarið er frumkvæði fólks á landsbyggðinni að hinni margvíslegustu sumargleði þar sem íbúar jafnt sem aðkomufólk og ekki síst brottfluttir bæjarbúar eru velkomnir. Um síðustu helgi var t.d. mikið um dýrðir á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum sem ber Eyjamönnum fagurt vitni þar sem árvisst er þakkað fyrir varðveislu og uppbyggingu eftir eldgosið 1973.

Ég var svo lánsöm vegna tengsla við gott fólk í Bolungarvík að fara á Markaðsdaginn þar í bæ. Þar er áratuga hefð að raða upp gömlum frystigámum við félagsheimilið sem fylltir eru alls kyns gæðum. Þar mátti finna harðfisk, lopapeysur og ýmist handverk auk þess sem boðið var upp á taílenskan mat. Austurlensk kona bauð til sölu verk sem hún hafði málað af einstakri litagleði og hæfni auk þess sem hún sat við og málaði hvert listaverkið af öðru á bústnar kinnar íslenskra barna sem komu sveitt úr hoppuköstulum og nutu þess að eiga daginn með stórfjölskyldunni, fólki á öllum aldri og af mörgum þjóðernum.

Það þurfti engan SAS (sérfræðing að sunnan) til að skapa þetta. Þarna rakst maður á gamla samferðamenn úr ýmsum áttum. Svo var ég kynnt fyrir sóknarnefndarformanni, organista og líka eiginmanni sóknarprestsins sem var viðburðastjóri hátíðarinnar, auk þess sem einn kunnur landsliðsmaður rölti um svæðið afslappaður í íslenskri lopapeysu og gallabuxum og maður hafði rétt nýlega séð hann á skjánum berjast eins og ljón við Króatana, sem eru hugsanlegir heimsmeistarar í fótbolta þegar þetta er skrifað. Þarna var fjölmenningin lifuð en ekki rædd. Ég fann þegar ég kvaddi Víkina og horfði á miðnætursólina varpa geislum á vitann við Óshlíðina hvað hinn sjálfsprottni félagsauður landsbyggðarinnar er heill og ósvikinn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×