Skoðun

Sófakarteflan á HM

Benedikt Bóas skrifar
Ég elska HM. Hlusta á svona 12-15 podköst á dag, horfi á nánast allar fréttir sem íslenskir fjölmiðlamenn senda frá sér og les nánast allt sem sagt er frá mótinu.

Allir íslenskir fjölmiðlar hafa staðið sig vel við að flytja fréttir af öllu og engu af landsliðsmönnunum. Stundum hafa þeir meira að segja farið fram úr sér. „JóiPé og Króli hljóma fyrir utan völlinn,“ var til dæmis frétt sem ekki undir nokkrum kringumstæðum hefði verið skrifuð. En á stórmóti er allt frétt. Og ég las þessa frétt og hafði gaman af.

Sumir eru ekki alveg jafn hrifnir af Eurovision-stemningunni sem virðist einkenna fréttaflutninginn frá Kabardinka. Hafa séð þessar lýsingar áður og kannast við tóninn í henni.

Að íslenski hópurinn hafi slegið í gegn á blaðamannafundinum og að búist sé við góðri sýningu þegar hópurinn stígur loks á stóra sviðið í Moskvu, Volgograd og Rostov.

En ég er bæði Eurovision-nörd og fótboltanörd og ég elska þetta. Þegar erlendir miðlar eru að eyða plássi í dagblöðum, mínútum í sjónvarpi og útvarpi til að tala um Hannes Halldórsson og Gylfa Sigurðsson og Birki Má Sævarsson og alla þessa drengi þá tárast ég. Virtustu sparkspekingar heims eru enn að tala um vítið sem Hannes varði og ég heyrði Gumma Ben lýsa því í bestu podköstum heims.

Þegar svo leikjunum er lokið tekur við HM stofan og Sumarmessan. Og þó það sé verið að fara yfir sömu hlutina horfi ég á báða þættina. Fæ einfaldlega ekki nóg. Það kemst ekkert annað að.

Afmæli eldri dótturinnar á laugardag er nánast orðið aukaatriði. Ég nefnilega elska HM – nánast meira en mína eigin fjölskyldu. Gleðilega hátíð. Áfram Ísland.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×