Skoðun

Betra líf

Sigurður Hannesson skrifar
Með auknum lífsgæðum lifir fólk lengur. Öldrun þjóða eykur eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Með fjórðu iðnbyltingunni opnast nýir möguleikar til þess að bæta líf okkar í gegnum líf- og heilbrigðistækni. Ísland á að taka þátt í þeirri þróun eins og önnur ríki. Í tengslum við opinbera heimsókn íslensku forsetahjónanna til Finnlands stóðu Samtök iðnaðarins ásamt sínum finnsku systursamtökum fyrir viðburði um líf- og heilbrigðistækni í Helsinki að viðstöddum forseta Íslands. Þar kynntu íslensk og finnsk fyrirtæki starfsemi sína og ræddu tækifærin sem framtíðin felur í sér ef rétt er á málum haldið. Samstarf Íslendinga og Finna á þessu sviði hefur verið gott í gegnum tíðina, meðal annars á sviði rannsókna.

Með fjárfestingu í rannsóknum og þróun á þessu sviði og skilvirku umhverfi nýsköpunar verða til mikil verðmæti sem stuðla ekki einungis að betra lífi fólks með nýjum lausnum heldur að aukinni verðmætasköpun sem skilar sér í auknum lífsgæðum. Þannig verður hugvit drifkraftur framfara á 21. öldinni.

Önnur ríki vilja taka þátt í þessari þróun og styðja við nýsköpun í líf- og heilbrigðistækni. Í atvinnustefnu breskra stjórnvalda sem nú er í mótun er lögð sérstök áhersla á að bregðast við öldrun þjóðarinnar, meðal annars með því að byggja upp þekkingu og fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni. Norsk stjórnvöld hafa svipaðar áherslur. Atvinnustefna er skipulag og samhæfing aðgerða. Atvinnustefna fjallar ekki síst um það hvernig ríki geta skarað fram úr í samkeppni ríkja og á hvaða sviðum. Hér á landi vantar skýra atvinnustefnu sem yrði rauði þráðurinn í annarri stefnumótun, t.d. menntastefnu og nýsköpunarstefnu.

Finnland er góð fyrirmynd. Með markvissri stefnumótun og skýrri sýn hafa Finnar náð miklum árangri á undanförnum áratugum á þessu sviði sem og öðrum. Með því að vinna markvisst að því að fjölga stoðum atvinnulífsins og þar með skapa aukin verðmæti hafa Finnar komist í fremstu röð. Íslendingar geta sannarlega lært af Finnum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×