Skoðun

Þitt er valið

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar
Fréttir helgarinnar eru þær að Eyþór Arnalds vann stórsigur í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Til hamingju með það.

Þrátt fyrir dræmt gengi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík seinustu árin virðist hann hvergi ætla að hvika frá stefnu sinni um dreifingu byggðar og andstöðu sinni við eðlilega borgarþróun og ætlar nú að bæta um betur og berjast gegn Borgarlínunni.

Það eru vissulega vandamál í borginni og þau þarf að leysa en ég treysti mér til að fullyrða að mislæg gatnamót leysa ekki eitt.

Við þurfum að tryggja dagvistun barna innan hverfis. Við verðum að efla dagforeldrakerfið, gera það miklu ódýrara fyrir foreldra og við þurfum að fjölga ungbarnadeildum. Það þarf að útrýma skutlinu. Borgarlínan og efling almenningssamgangna mun svo vera tæki til að auka valfrelsi barna með því að gera þeim kleift að ferðast um borgina þegar þau hafa aldur til.

Það þarf að halda áfram að skilgreina og styðja við hverfiskjarna og gera fólki það mögulegt að sinna sem flestu innan síns hverfis.

Við þurfum nýtt stórt hverfi inni í borginni. Við þurfum hverfi sem gerir ráð fyrir góðum almenningssamgöngum og umferð gangandi og hjólandi frá fyrsta degi. Við þurfum að byggja í Vatnsmýrinni vegna þess að byggð þar mun ekki skapa umferðarvanda heldur leysa hann. Við byggjum okkur frá umferðarvanda með því að þétta byggð – ekki með því að byggja umferðarmannvirki og þið sem í dag þekkið Ártúnsbrekkuna á háannatíma getið ímyndað ykkur hvað það myndi þýða að halda áfram að byggja austast í borginni.

Mislæg gatnamót eru engin lausn inni í borg – þau taka pláss, stytta ferðatíma á háannatíma um sirka 90 sekúndur og eru algjör farartálmi fyrir gangandi og hjólandi. Við leysum ekkert með því að færa hnútinn um nokkur hundruð metra. Við leysum umferðarvandann með öflugum almenningssamgöngum og skipulagi sem vinnur að því að gefa fólki val um búsetu, lífsstíl og samgöngumáta.

Í vor verður kosið um skyndilausnir sem skapa vandamál eða borgarþróun til framtíðar – þitt er valið.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×