Skoðun

Vilji, völd og veruleiki - íslenskur grunnskóli í hættu

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir skrifar
Kennarar ásamt menntayfirvöldum hafa í hendi sér hvernig til tekst að mennta ungt fólk til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi þar sem styrkur nemenda er metinn út frá forsendum hvers og eins. Skólinn er ekki bara hús heldur stofnun sem gegnir þessu fjölþætta verkefni.

Eftir að grunnskólinn fluttist frá ríki til sveitarfélaga hefur hlutverk hans breyst allmikið og það gefur auga leið að í þeim breytingum á kennarinn að gegna lykilhlutverki. Hins vegar hefur það gerst á undanförnum árum að sveitarfélögin eru sífellt að móta nýja stefnu og ákveða á hvaða mið skuli róið, að því er virðist til þess eins að sýna hvar valdið liggur. Þetta má sjá allt frá kjarasamningi 2001 þar sem miðstýring var aukin og síðan þá hafa kennarar haft æ minna að segja um faglega þætti vinnu sinnar. Þegar svo er komið er hætta á ferðum. Kennarar annað hvort gefast upp fyrir ofurvaldinu og hverfa til annarra starfa eða þeir missa löngun til að berjast með faglegum vopnum fyrir framtíðarheill þjóðarinnar. Þeir gerast þá einfaldlega daglaunamenn sem mæta í vinnuna og að loknum starfsdegi fara þeir heim og mæta aftur næsta dag. Þetta gengur ekki upp í kennslu; þar er ekki í boði að taka bara einn dag í einu. Kennarar eru venjulega með hugann við verkefni næsta dags og fá oftar en ekki bestu hugmyndirnar utan vinnutíma. Þannig er fagmennsku kennara stefnt í hættu með bindingu vinnutíma og miðstýrðu kerfi sem stöðugt er verið að breyta. Þessari óheillaþróun þarf að snúa við.

Í þessu sambandi er við hæfi að vitna í Pál Skúlason heimspeking, sem segir í Pælingum sínum: „Stefnulaus stjórn á sér einungis eitt markmið: eflingu valdsins til að stjórna. Þess vegna dregur stefnulaus stjórn að sér allt vald eins og hún frekast getur. Hún þolir ekki valddreifingu. Hún hefur því í för með sér stöðuga og ómarkvissa miðstýringu.“

Það virðist alltaf vera hægt að fletta upp í ritum Páls þegar hugsunina vantar orð.



Höfundur er grunnskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×