Skoðun

Bregðumst við álagi og áreiti

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Skoða verður af fullri alvöru hvernig hægt er að bregðast við í samfélagi þar sem álag og áreiti eykst sífellt. Sem betur fer er skilningur á mikilvægi þess að stytta vinnutímann að aukast.

Bæði Reykjavíkurborg og ríkið eru nú með tilraunaverkefni í gangi til að skoða kosti og galla styttingar vinnuvikunnar. BSRB hefur talað fyrir því um áratuga skeið og hefur krafan færst sífellt ofar á kröfulistann. Bandalagið leggur áherslu á að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 36.

Nú er samfélagið farið að taka við sér svo um munar. Reykjavíkurborg hefur leitt vagninn með tilraunaverkefni sem unnið hefur verið með BSRB frá árinu 2015. Annar áfangi verkefnisins hefst bráðlega en þá geta allir vinnustaðir borgarinnar sótt um að taka þátt. Sambærilegt tilraunaverkefni ríkisins og BSRB er einnig í gangi.

Markmiðið með tilraunaverkefnunum er að rannsaka langtímaáhrifin af því að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun. Þær niðurstöður sem komnar eru úr fyrsta áfanga tilraunaverkefnis borgarinnar sýna að styttingin hefur gefið góða raun. Starfsánægja hefur aukist og skammtímaveikindi dregist saman á meðan afköstin hafa haldist óbreytt.

Önnur sveitarfélög hafa einnig sýnt málinu áhuga, af augljósum ástæðum. Ef vinnustaðir geta með einni aðgerð dregið úr álagi og veikindum án þess að það bitni á afköstum er það augljós hagur allra að skoða málið. Það ættu framsýnir stjórnendur fyrirtækja á almennum vinnumarkaði einnig að gera.

Með styttri vinnuviku má stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Fæst viljum við að börn séu í meira en átta tíma á dag í skólum og leikskólum. Flestir gætu hugsað sér meiri tíma til að hreyfa sig, sinna fjölskyldu og áhugamálum. Með styttri vinnuviku má einnig auka jafnrétti á vinnumarkaði, enda vinna konur frekar hlutastörf en karlar og eru líklegri til að sinna börnum í meira mæli. Við höfum allt að vinna og engu að tapa með því að stytta vinnuvikuna.





Höfundur er formaður BSRB.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×