Skoðun

Oss börn eru fædd

Guðjón S. Brjánsson skrifar
Það er við hæfi nú fyrir jólahátíðina, sem oft er líka nefnd fæðingarhátíð frelsarans, að vekja athygli á aðbúnaði fæðandi kvenna á Íslandi.

Að mörgu leyti eru aðstæður framúrskarandi á alþjóðlega vísu. Við eigum vel þjálfað fagfólk og mæðra- og ungbarnavernd almennt vel skipulögð. Frávikin er þó sláandi. Konur á landsbyggðinni búa við mjög skerta þjónustu að þessu leyti. Undanhaldið hefur verið stöðugt og enginn viðsnúningur í augsýn. Í nokkrum byggðarlögum er enga ljósmæðraþjónustu að hafa og meðgöngueftirlit veitt með afbrigðum. Einungis þrjár heilbrigðisstofnanir í landinu hafa nú viðbúnað til að bregðast við bráða keisaraskurðum.

Þessar aðstæður eru ekki upp komnar vegna stefnu stjórnvalda, heldur miklu fremur stefnuleysis. Samfellt fjársvelti hefur knúið heilbrigðisstofnanir til margháttaðra þjónustuskerðinga. Umgjörðin hefur veikst og ekkert komið í staðinn. Ung kona á Patreksfirði, í Vestmannaeyjum eða í Neskaupstað sem þarf eftirlit á meðgöngu gengst undir mikið aukalegt álag. Hún þarf að taka sig upp og flytjast að heiman, jafnvel nokkrum vikum fyrir fæðingu, og dvelja fjarri heimabyggð. Og það er ekki bara um að ræða hina fæðandi konu. Hluti fjölskyldunnar er líka makinn og jafnvel annað ungt barn sem mikilvægt er að fái að taka þátt í þessum einstaka viðburði, þegar nýtt barn kemur í heiminn.

Þegar komið er á væntanlegan fæðingarstað tekur síðan ekki við neinn formlegur viðbúnaður og eins víst að dyr séu lokaðar þegar koma þarf fjölskyldunni fyrir, að það fari fyrir þeim líkt og Jósep og Maríu forðum.

Lítill fjárhagslegur stuðningur er í boði. Um leið og krafa íbúanna er sú að góð mæðraþjónusta sé veitt í nærsamfélaginu, þá er líka nauðsynlegt að fjölskyldur sem þurfa að dvelja fjarri heimahögum í tengslum við fæðingu og aðra heilbrigðisþjónustu búi við sæmilega aðstöðu og þeim verði gert það fjárhagslega kleift. Stjórnvöld þurfa að bregðast við og ný heilbrigðisstefna verður að taka mið af þessum þörfum.

 

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×