Skoðun

Góð fyrirheit

Sigurður Hannesson skrifar
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar lofar góðu. Áherslu á uppbyggingu innviða, nýsköpun og menntun er sérstaklega fagnað enda er þar fjárfest til framtíðar og samfélagið búið undir breytingar samhliða fjórðu iðnbyltingunni.

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni og í því ljósi er jákvætt að sjá áherslu nýrrar ríkisstjórnar á nýsköpun.

Nýsköpun er án landamæra og því verður starfsumhverfi hér á landi að vera samkeppnishæft við það sem gengur og gerist erlendis. Skilyrði fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki þurfa að vera framúrskarandi en við hljótum líka að stefna að því að þegar þau fyrirtæki vaxa og dafna þá sé ákjósanlegt fyrir þau að byggja upp frekari starfsemi hér á landi. Því er sérstaklega fagnað að afnema eigi þök á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar og vonandi kemur það til framkvæmda strax á nýju ári. Sköpunargáfan sem byggir á hugviti verður eftirsóknarverður eiginleiki í framtíðinni og við Íslendingar viljum vera þekktir fyrir að geta breytt hugviti í verðmæti.

Innviðir landsins verða styrktir og uppbyggingu í samgöngum hraðað. Þess má vænta að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun verði uppfærðar til samræmis við þessar áherslur. Vel færi þó á því að gerð yrði innviðaáætlun þar sem kæmi fram heildstæð stefna um uppbyggingu innviða. Við lifum í heimi örra breytinga. Með fjórðu iðnbyltingunni verða til ný störf sem krefjast umfram annað hæfni í auknum mæli, það er, að geta dregið ályktanir og leyst verkefni. Þess vegna þarf umbætur í menntakerfinu að sama skapi og fjármagn. Aukna áherslu þarf á tækni- og raungreinamenntun. Þá skal minnt á það að þrátt fyrir tæknibreytingar verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað starfsfólk.

Boðaðri lækkun tryggingagjalds er fagnað en þó er minnt á að þegar hefur verið lofað 1% lækkun sem ekki var staðið við.

Heilt yfir ber að fagna þeirri áherslu sem sett er á samkeppnishæfni því það getur ráðið úrslitum um vöxt og viðgang efnahagslífsins. Það er tilhlökkunarefni að sjá það sem fram kemur í sáttmálanum verða að veruleika og við erum reiðubúin í þau uppbyggilegu samskipti sem ný ríkisstjórn boðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×